Vegagerðin kynnir hér með byggingu nýrrar tvíbreiðrar brúar yfir Skjálfandafljót á Hringvegi í sveitarfélaginu Þingeyjarsveit. Brúin er hluti af grunnkerfi samgangna en núverandi brú er einbreið og uppfyllir ekki öryggiskröfur Vegagerðarinnar. Brúarbyggingin er í grennd við Goðafoss sem er fjölsóttur ferðamannastaður. Brúin verður byggð yfir gljúfur árinnar neðan við núverandi brú og þarf því að ný- og endurbyggja Hringveginn á um 1,5 km löngum kafla.
Tilgangur framkvæmdarinnar er að bæta vegasamgöngur á Hringveginum. Framkvæmdin er í samræmi við markmið samgönguáætlunar um að auka umferðaröryggi og fækka einbreiðum brúm.
Kynning fer fram í Skipulagsgáttinni og er kynningartími frá 1. nóvember 2024 til 2. desember 2024. Umsagnir munu birtast undir málinu jafnóðum og þær berast á eftirfarandi slóð: https://skipulagsgatt.is/issues/2024/1309.
Áætluð efnisþörf nýs vegar er tæplega 73 þús. m3 og er efnistaka fyrirhuguð úr skeringum nýs vegsvæðis, núverandi vegum og tveimur námum.
Samkvæmt drögum að Samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 er ráðgert að framkvæmdir við nýja brú verði á tímabilinu 2029-2033.
Framkvæmdin hefur verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar í samræmi við lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021, samkvæmt 19. gr. laganna, 1. viðauka, tölulið 10.08, flokk B því framkvæmdir verða innan verndarsvæðis, sbr. formála 1. viðauka, iii. lið 2. tölul. 2. viðauka.
Þingeyjarsveit, Fiskistofa, Hafrannsóknastofnun, Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra, Minjastofnun Íslands, Míla, Náttúrufræðistofnun, Rarik, Tengir hf., Orkufjarskipti hf. og Umhverfisstofnun.
Frestur þeirra til að skila umsögnum til Skipulagsstofnunar er til 2. desember 2024 og er ákvörðunar Skipulagsstofnunar að vænta 23. desember 2024.
Allir geta fylgst með málinu á Skipulagsgáttinni og séð þegar nýjar umsagnir berast. Þegar kynningartíma lýkur mun Skipulagsstofnun hafa samband við framkvæmdaraðila varðandi næstu skref.