Verkið felst í endurbyggingu Vatnsnesvegar (711) á um 7,1 km löngum kafla frá núverandi slitlagsyfirborði við stöð 4640 og norður fyrir Krossavallalæk að stöð 11700. Núverandi vegur er um 4,5 – 5,5 m breiður malarvegur og verður hann breikkaður í 6,0 m breiða akbraut með 0,5 m breiðum öxlum.
Gert er ráð fyrir að verktaki geti hafið framkvæmdir við undirritun samnings og samkvæmt samþykktri verkáætlun. Verk skal hefjast sem allra fyrst eftir undirritun samnings. Fyrir 1. nóvember 2023 skal ljúka við fyllingar, fláafleyga, ræsi, girðingar og a.m.k. helming af vinnslu styrktarlagsefnis. Verkinu skal að fullu lokið fyrir 1. september 2024
Efnisyfirlit
Útboðsverkið er á Vatnsnesi vestanverðu, við Miðfjörð í Húnaþingi vestra. Vegkaflinn liggur um lönd jarðanna Ytri-Kárastaða, Syðri-Ánastaða 1 og 2, Ytri-Ánastaða, Bólstaða og Skarðs.
Verkið felst í endurbyggingu Vatnsnesvegar (711) á um 7,1 km löngum kafla, frá núverandi slitlagi við Ytri-Bæjarlæk norðan Kárastaða og norður fyrir Krossavallalæk norðan við Skarð. Núverandi vegur er um 4,5 – 5,5 m breiður malarvegur og verður hann breikkaður í 6,0 m breiða akbraut með 0,5 m breiðum öxlum. Vegurinn verður endurbyggður að mestu leyti í vegstæði núverandi vegar og hliðrast aðeins lítillega, nema við bæinn Skarð og norðan við Skarðsá þar sem hann hliðrast um allt að 15 m. Á nokkrum stöðum verður hann hækkaður lítillega eða lækkaður en mest verður hann lækkaður á um um 300 m kafla norðan við Skarðsá.
Meðan á framkvæmdum stendur verður gerð hjáleið ofan vegar, norðan við Skarðsá, en árfarvegur hennar verður færður um 18 m norðar, jafnframt því sem hann verður dýpkaður talsvert og formaður að nýju, beggja megin vegar. Gert er ráð fyrir að halda umferð á núverandi vegi yfir veturinn 2023-2024. Vatnsnesvegur er 70 kílómetra malarvegur frá Hvammstanga og út fyrir Vatnsnes. Vegurinn hefur verið til umfjöllunar síðustu ár enda ástand hans oft slæmt, ekki síst í vætutíð. Nokkur umferð er um veginn, íbúar á Vatnsnesi fara um hann daglega, meðal annars skólabíll, og ferðamenn aka hann til að skoða til dæmis Hvítserk og seli. Umferðin á þessum slóðum var árið 2021 um 148 bílar á sólarhring yfir allt árið, en yfir sumartímann óku þar um 272 bílar á sólarhring. Vegagerðin hefur samið við Þrótt ehf. á Akranesi um framkvæmd verksins, en Þróttur bauð 455 milljónir króna í verkið sem var um 30 milljónum króna lægra en áætlaður verktakakostnaður.
Framkvæmdir hófust í júlí 2023. Verkinu skal að fullu lokið fyrir 1. september 2024.