Borgarlínan er hágæða almenningssamgöngukerfi (e. Bus Rapid Transit) fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Hún mun að mestu aka í sérrými með forgangi á gatnamótum en þannig eykst bæði áreiðanleiki og hagkvæmni. Þjónustan verður betri og áhersla er lögð á gott aðgengi fyrir alla. Þá eykst tíðni ferða og ferðatíminn styttist. Borgarlínan verður raunhæfur og vistvænn valkostur, sniðinn að þörfum notenda.
Borgarlínan og Strætó munu saman mynda heildstætt leiðanet almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Í Nýju leiðaneti eru skilgreindar tvær megingerðir leiða: Stofnleiðir og almennar leiðir. Stofnleiðirnar verða sjö talsins og munu tengja sveitarfélög og stærstu hverfi höfuðborgarsvæðisins.
Stofnleiðirnar eru Borgarlínuleiðir framtíðarinnar. Eftir því sem uppbyggingu sérrýmis vindur fram breytast stofnleiðir í Borgarlínuleiðir. Þá eykst skilvirkni og ferðatími styttist.
Borgarlínan verður með góðar tengingar við strætisvagna sem koma frá nágrannasveitarfélögum.
Hið Nýja leiðanet, sem nú er í vinnslu, er hannað á þann hátt að bæði borgarlínuvagnar og aðrir strætisvagnar geta ekið út úr sérrýminu og ferðast hluta leiðarinnar í blandaðri umferð. Þetta felur í sér mikinn sveigjanleika og styttri ferðatíma fyrir farþega.
Aðrar leiðir munu nýta sérrýmið að hluta og fá aukinn forgang á þeim hluta leiðarinnar sem styttir ferðatíma farþega.
Þegar sérrými hefur verið byggt upp á a.m.k. helming stofnleiðar breytist hún í borgarlínuleið.
Nýtt leiðanet miðar að því stórauka þjónustu við íbúa höfuðborgarsvæðisins. Biðin eftir vagni á stofnleiðum, þar með talið borgarlínuleiðum, verður aldrei löng en þeir munu koma á um 7-10 mínútna fresti á annatíma og ferðatími mun einnig styttast til muna. Miðað við fyrstu hugmyndir að Nýju leiðaneti mun íbúum sem búa í göngufæri við slíka þjónustu fjölga verulega.
Á borgarlínuleiðum verður fargjald greitt áður en stigið er í vagninn og aðgengi verður sérlega gott því gengið verður þrepalaust inn um allar dyr. Hvoru tveggja mun stytta þann tíma sem vagninn er á stöðvum og þar með ferðatímann.
Uppbygging Borgarlínunnar og innleiðing á Nýju leiðaneti mun hafa þann ávinning að ferðatími almenningssamgangna mun styttast fyrir flesta. Ekki bara á borgarlínuleiðum heldur öllum leiðum sem nýta sérrýmið að hluta. Sérrými fyrstu lotu munu einnig nýtast öðrum leiðum, stytta ferðatíma þeirra og greiða fyrir umferð.
Sem dæmi um áætlaða styttingu ferðatíma má gera ráð fyrir að það muni taka 11 mínútum styttri tíma að ferðast frá Hamraborg til HR og frá Seltjarnarnesi að Kringlunni.
Stærsta breytingin í Nýju leiðaneti verður í kjölfar framkvæmda fyrstu lotu Borgarlínunnar þar sem myndast nýjar tengingar með brúm yfir Fossvog og Elliðaárvog. Áætlað er að þegar þeim framkvæmdum er lokið hefji fyrstu tvær borgarlínuleiðirnar akstur, frá miðborginni til og frá Vatnsenda annarsvegar og Egilshöll hinsvegar. Samtímis verður Nýja leiðanetið innleitt heildstætt.
Fyrsta framkvæmdalotan felst í að byggja sérrými, borgarlínubrautir, á um 14,5 km löngum kafla, frá Hamraborg í Kópavogi um miðborg Reykjavíkur að Ártúnshöfða.
Borgarlínuvagnar geta ekið á venjulegu gatnakerfi og því munu borgarlínuvagnarnir á leið A, keyra áfram frá Hamraborg í blandaðri umferð alla leið upp í Vatnsenda og leið B, mun aka frá Ártúnshöfða í blandaðri umferð að endastöð við Egilshöll.
Borgarlínuleiðirnar munu því í fyrstu lotu aka frá Vatnsenda alla leið í Egilshöll.
Uppbygging Borgarlínunnar er langtíma verkefni og mun borgarlínuleiðum fjölga jafnt og þétt á tímabili samgöngusáttmálans.
Sá sveigjanleiki að vagnar geta keyrt inn og út úr sérrými, býður upp á að hægt er að byggja upp innviði í lotum. Samgöngusáttmálinn brýtur uppbyggingu Borgarlínunnar niður í sex lotur. Að samgöngusáttmálanum liðunum munu sex af sjö stofnleiðum Strætó hafa breyst yfir í borgarlínuleiðir.