Metþátttaka á afmælisári
Þrjú hundruð manns mættu á rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar 2024 sem haldin var á Hilton Reykjavík Nordica þann 1. nóvember 2024. Ráðstefnan var nú haldin í 23. sinn en í ár eru 60 ár frá því rannsóknarstarf Vegagerðarinnar hófst og 30 ár frá stofnun rannsóknasjóðs Vegagerðarinnar.
Dagskráin var fjölbreytt að venju og endurspeglaði það margháttaða rannsókna- og þróunarstarf sem styrkt er af rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. Gestir ráðstefnunnar komu víða að, bæði frá Vegagerðinni, úr hópi ráðgjafa, verkfræðinga, verktaka, akademíska samfélagsins og áhugafólks um rannsóknir á sviði samgangna.
Rannsóknir Vegagerðarinnar og rannsóknasjóðurinn standa á tímamótum í ár. Fyrir 60 árum, árið 1964 voru sett ný vegalög. Þá hófst formlegt rannsóknarstarf Vegagerðarinnar með rannsóknum á slitlögum – og eru það rannsóknir sem lögðu grunn að tæknilausnum sem hafa verið þróaðar og byggt á í áratugi. Þá er rannsóknasjóðurinn 30 ára í ár en sjóðurinn var fyrst nefndur á nafn eftir endurskipulagningu á rannsóknarstarfi stofnunarinnar árið 1994. Frá þeim tíma hefur rannsóknasjóðurinn gegnt lykilhlutverki í því að fjármagna fjölbreytt rannsóknarverkefni og efla nýsköpun.
Rannsóknasjóður Vegagerðarinnar er drifkraftur að baki nýsköpunar í vegagerð. Framlag úr sjóðnum hefur hins vegar haldist það sama í samgönguáætlun frá árinu 2019, eða 150 milljónir króna. Með hækkandi verðlagi er ljóst að færri verkefni fá stuðning frá sjóðnum ár hvert og mikilvægt að hækka framlagið til að efla mikilvægt rannsóknarstarf.
Ár hvert er mikil ásókn í rannsóknarsjóðinn en fjöldi umsókna er breytilegur eftir árum. Í ár bárust 113 umsóknir og sótt var um samtals 365 milljónir króna. Sjóðurinn hafði 150 milljón krónur til ráðstöfunar og veitti styrki til 67 verkefna. Rannsóknaverkefnin sem hlutu styrk í ár endurspegla víðtæk viðfangsefni sjóðsins en um 40 prósent verkefnanna tengjast mannvirkjum, 24% fjalla um umferðaröryggi og -greiningu, 33% snúa að umhverfismálum, og 4% um samfélagslega þætti.
Það er fagnaðarefni að fjölgun er í verkefnum í umhverfisflokki, enda eru umhverfismál að verða sífellt samþættari öðrum þáttum samgönguframkvæmda. Hlutur umhverfisflokksins fór úr 17% árið 2022 í 31% í fyrra og er nú 33%.
Umsóknir í sjóðinn berast víða að, svo sem úr atvinnulífinu og háskólasamfélaginu. Stærsti hluti styrkjanna er veittur verkefnum sem koma frá verkfræðistofum, eða 36%. Hlutur háskólanna fer sístækkandi og nýtt met var slegið í ár en um 30% styrkjanna komu í hlut háskólasamfélagsins. Vegagerðin stendur einnig sjálf fyrir fjölda rannsóknarverkefna og í ár voru þau 12% en aðrar opinberar stofnanir og fyrirtæki eru með 9%. Þá eru í flokknum „aðrir“ 13%.
Þær rannsóknir sem styrktar eru af rannsóknasjóðnum eru ekki unnar í tómarúmi heldur er þeim ætlað að bæta verklag og auka skilning fólks á ýmsum málefnum, enda eru umsóknir metnar með það fyrir augum að þau geti orðið Vegagerðinni og öðrum sem vinna að framgangi í þessum málaflokki samgöngumála að góðum notum.
Sjóðurinn gegnir mikilvægum þætti í starfsemi stofnunarinnar en markmið hans er að hafa frumkvæði að rannsókna- og þróunarstarfi, sem stuðlar að því að Vegagerðin geti uppfyllt sett markmið á hverjum tíma. Að afla nýrrar þekkingar á sviði vega- og samgöngumála og að stuðla að því að niðurstöður varðandi aðferðir, efnisnotkun og hagkvæmara vinnulag skili sér í stöðlum og breyttu verklagi.
Veggspjald – Lífbindiefni í slitlög
Veggspjald – Forsteyptir landstöplar brúar yfir
Veggspjald – Afkoma og hreyfing Breiðamerkurjökuls og afrennsli
Veggspjald – A new physics-based approach to probabilistic seismic hazard
Veggspjald – Alongshore sediment transport capacity
Veggspjald – Mat á rúmmálsbreytingum
Veggspjald – Forsteyputækni í vegagerð
Veggspjald – Construction Carbon footprint analysis
Veggspjald – Skoðun á lóðréttum tengingum
Veggspjald – Ákvörðun á stífni íslenskra malbiksblandna
Veggspjald – Götukappakstursbraut
Veggspjald – Exploring the Sea Level
Veggspjald – Forsteyputækni í vegstokk
Veggspjald – Fjarskipti við baujur með LoRa og nákvæm staðsetning þeirra