Rannsóknaráðstefna Vegagerðarinnar var haldin í 22. sinn föstudaginn 27. október og fór fram á Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut. Ráðstefnunni er ætlað að endurspegla afrakstur hluta þess rannsókna- og þróunarstarfs, sem styrkt er af rannsóknasjóði Vegagerðarinnar.
Á ráðstefnunni kenndi margra grasa. Haldnir voru 16 fyrirlestrar um rannsóknarverkefni og kynnt 13 veggspjöld. Dr. Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur og prófessor í jarðfræði við Háskóla Íslands, hóf ráðstefnuna með erindi sem bar heitið „Eldvirkni á Íslandi og hugsanleg áhrif á innviði“.
Styrkur rannsóknasjóðs Vegagerðarinnar hefur legið í því að styrkja verkefni á mjög breiðu fræðasviði þar sem ekki einvörðungu er einblínt á hefðbundna vegagerð. Verkefnin falla þó undir fjóra almenna flokka sem eru: mannvirki, umferð, umhverfi og samfélag.
Ráðstefnan var afar vel sótt en hátt í 270 manns voru skráðir. Um breiðan hóp er að ræða sem samanstendur af starfsfólki Vegagerðarinnar, starfsmönnum ráðgjafa- og verkfræðistofa, verktökum og almennu áhugafólki um samgöngur og rannsóknir.
Ráðstefnustjóri var Páll Valdimar Kolka.