13. maí 2022
Víkur­fjara hörfar í vetrar­storm­um

Mikið landbrot hefur orðið í fjörunni við Vík í Mýrdal frá áramótum og er rofið sums staðar yfir fimmtíu metrar. Vegagerðin stefnir á að hækka flóðvarnargarða sem liggja meðfram þorpinu.

Stormasamt hefur verið við Vík í vetur og mikið gengið á í Víkurfjöru og Fagradalsfjöru. Rof er sums staðar yfir fimmtíu metrar og hefur ekki verið meira í langan tíma að því er segir í skýrslu Jóhannesar Marteins Jóhannessonar hjá Kötlusetri sem hann vann fyrir Mýrdalshrepp og LavaConcept Iceland ehf.

Sigurður Sigurðarson strandverkfræðingur á hafnadeild Vegagerðarinnar segir ástæðu rofsins vera þrálátar og sterkar suðvestanáttir sem geisað hafi síðan um áramót. „Suðvestanáttin étur úr þessari fjöru. Það kemur reyndar efni fyrir Reynisfjall úr fjörunum fyrir vestan fjallið en rofmátturinn er meiri en aðfærslan af efninu og þess vegna verður rof,“ útskýrir hann og bætir við að ekki hafi mælst hærri öldur á svæðinu áratugum saman. „Ástandið nú er afar ólíkt því sem var síðasta vetur. Þá voru suðaustanáttir ráðandi og sandur hlóðst að austanverðu á sandfangara. Á tímabili héldu heimamenn að sá sandur væri kominn til að vera en hann var mjög fljótur að fara strax í haust.“

Í skýrslunni kemur fram að mikið rof sé við flest svæði sem mæld hafa verið og þá hefur Kötlugarður einnig skemmst mikið. Fjaran er víða orðin stutt og brött. Í skýrslunni er því haldið fram að rof af þessari stærðargráðu geti varla talist annað en náttúruhamfarir. Fjölmörg svæði við ströndina séu með rauða og svarta merkingu, en rauð merking þýðir að svæðið hafi orðið fyrir miklum, langvarandi og endurteknum breytingum, en svört að óviðunandi breytingar hafi orðið þar sem rúmmál og breidd fjöru minnkar mikið milli mánaða, tvo mánuði í röð. Ef veðrið verður áfram með sama sniði eru líkur á áframhaldandi landbroti því ekkert ver fjörukambana lengur fyrir öldum.

Sigurður segir vert að muna að ströndin við Vík er ekki stöðugt fyrirbæri heldur mjög breytilegt. „Þessi fjara var ekki til fyrir Kötlugosið 1918 og meira að segja fyrir þann tíma var ströndin líka í rofi,“ lýsir hann en til eru mælingar frá árunum 1903 og 1920 sem sýna þetta. „Ef við förum enn lengra aftur í tímann þá náði sjórinn upp að klettunum ofan við Vík og til austurs. Fjaran fór ekki að myndast þar fyrr en á 17. öld en það eru Kötlugosin sem bera fram þennan mikla sand til sjávar sem byggir upp ströndina.“

Flóðvarnargarður hækkaður

Ýmislegt hefur verið gert til að hefta rof við ströndina. „Vegagerðin hefur byggt tvo sandfangara, þann fyrri 2011 og þann seinni 2018. Þeir verja núverandi byggð fyrir rofi. Annar sandfangarinn hefur safnað miklum sandi en hinn litlum.“ Sigurður bendir á mikilvægi þess að græða upp þann sand sem safnast við sandfangarana. „Þegar vindur blæs af hafi feykir hann sandinum sem hefur safnast fyrir yfir bæinn. Ég veit að heimamenn hafa verið í sambandi við Landgræðsluna og reyndar hefur verið í gangi uppgræðsla í gegnum árin en nú þarf að gera meira þegar komin er góð fjara milli Reynisfjalls og fyrri sandfangarans.“

Stefnt er að því að hækka flóðvarnargarð sem liggur meðfram öllu þorpinu og var byggður á tíunda áratugnum. „Við hækkum garðinn um 50 til 70 cm á þeim svæðum sem flætt hefur yfir hann til að minnka hættuna á flóði á landi,“ segir Sigurður en í vetur fór sjór ósjaldan yfir flóðvarnargarðinn og honum fylgdi mikill sandur. „Til að mynda fylltist lóð Vegagerðarinnar af sandi. En með þessari aðgerð ætti að vera hægt að koma í veg fyrir slíkt.“

Mýrdalshreppur hefur óskað eftir því við Vegagerðina að byggður verði nýr sandfangari austan við þann nýrri. Sigurður segir að það verði sett inn á samgönguáætlun á næstunni. „Síðan er umræða í gangi um aðrar lausnir en við höfum ekki talið nauðsynlegt að ganga lengra en þetta í bili.“

Þessi grein birtist í 3. tbl. Framkvæmdafrétta 2022 sem er á leið til lesenda.  Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.

Lóð Vegagerðarinnar í Vík fylltist af sandi.

Lóð Vegagerðarinnar í Vík fylltist af sandi.

Mikill sandur lagðist yfir þorpið.

Mikill sandur lagðist yfir þorpið.