Viðgerðir á brúnni yfir Elliðaár við Árbæjarstíflu hefjast á næstu dögum og áætlað er að verkinu ljúki um miðjan júní. Undirbúningur er hafinn og búið að lækka hámarkshraða um brúna í 30 km/klst. Hjáleið fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur verður ofan brúarinnar við Árbæjarstíflu. Hliðra þarf akreinum og verða göngu- og hjólastígar á brúnni nýttir fyrir bílaumferð. Búast má við umferðartöfum en vegfarendur eru sérstaklega beðnir um að sýna tillitssemi og aka með varúð um vinnusvæðið.
Viðgerðirnar felast meðal annars í að endurnýja gönguvegrið, losa lélega steypu með vatnsbrotsvél, brjóta niður annan bríkurkantinn, taka burtu vegrið og ljósastaura og byggja kantinn upp á nýtt. Steypa á nýja brík og jafnframt setja upp nýtt vegrið og nýja ljósastaura. Þá verður skipt um þensluraufar í brúargólfi
Einnig er fyrirhugað að lyfta brúnni upp til að hægt verði að skipta um legur í báðum landstöplum og lagfæra í kringum þær. Þegar að því kemur verður brúin lokuð og umferð vísað niður á Reykjanesbraut og um Ártúnsbrekku en það verður auglýst sérstaklega.
Vinnusvæðið verður afmarkað vestan megin á brúnni en brúarvinnuflokkar Vegagerðarinnar sjá um viðgerðirnar. Vinnuskúrar verða settir upp í Elliðaárdal.
Tekið verður sérstakt tillit til viðkvæms lífríkis í Elliðaánum og þess að veiðitímabilið hefst um miðjan júní. Áætlað er að verkinu ljúki í kringum 20. júní.