11. febrúar 2025
Viðgerð­ir við erfiðar aðstæður

Starfsfólk Vegagerðarinnar og verktakar vinnur nú að því að gera við holur og aðrar skemmdir sem hafa myndast á vegum víða um land eftir umhleypingasamt veður. Unnið er við erfiðar aðstæður, þar sem umferð ökutækja er mikil, jafnvel dimmt í veðri, mikil rigning og bleyta. Erfitt getur verið fyrir ökumenn að sjá fólk að störfum sem skapar hættu á slysum. Vegagerðin biður vegfarendur að sýna sérstaka varkárni og draga úr hraða þegar ekið er hjá viðgerðarsvæðum.

Margir hafa orðið varir við skemmdir og holur á vegum landsins undanfarna daga. Umhleypingar í veðri, sér í lagi rigning og frost og þíða til skiptis, hafa mikil áhrif á holumyndun á vegum. Aukin umferð hefur einnig áhrif þar á og ekki síður skortur á fjármagni til viðhalds vega.

Gert er við holur og skemmdir á vegum eins fljótt og kostur er, oft í erfiðum aðstæðum. Víða er unnið í mikilli nálægð við oft þunga umferð sem getur verið varasamt og aukið hættu á slysum. Því er mikilvægt að vegfarendur hafi augun hjá sér og dragi úr hraða þegar ekið er hjá viðgerðarsvæðum. Í vor verður síðan farið í heildstæðari viðgerðir, annað hvort heilar yfirlagnir eða staðbundnar viðgerðir á stórum sem litlum holum og öðrum skemmdum.

Ein af ástæðum þess að holur myndast er þegar vatn liggur á vegum. Ekki þarf nema litla sprungu í malbiki til að vatn komist þar undir og safnist fyrir. Þegar vatn frýs eykst rúmmál þess og þegar það þiðnar aftur er malbikið uppspennt. Ef þungur bíll ekur þar yfir og brýtur það niður getur hola myndast mjög hratt.

Hægt er að tilkynna um holur í vegum í gegnum ábendingakerfi Vegagerðarinnar á vegagerdin.is. Þá er smellt á flipann „Hafðu samband“. Á sama stað er hægt að senda inn tjónstilkynningu. Við það fer málið í hefðbundið ferli þar sem metið er hvort bótaskylda sé fyrir hendi.

 

 Umhleypingasamt veður hefur áhrif á holumyndun.

Umhleypingasamt veður hefur áhrif á holumyndun.

Unnið er að holuviðgerðum víða um land.

Unnið er að holuviðgerðum víða um land.

Frost og þíða til skiptis getur hraðað holumyndun.

Frost og þíða til skiptis getur hraðað holumyndun.

Holuviðgerðir í febrúar 2025.

Holuviðgerðir í febrúar 2025.