Magnús Valur Jóhannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri mannvirkjasviðs, á langan feril að baki hjá Vegagerðinni. Aðeins 17 ára gamall fékk hann sumarstarf sem mælingamaður. Hann var fastráðinn verkfræðingur haustið 1981 og hafði því verið í fullu starfi hjá Vegagerðinni í rúm 41 ár þegar hann settist í helgan stein í lok apríl fyrr á þessu ári.
„Ég man vel eftir fyrsta vinnudegi mínum sem mælingamaður hjá Vegagerðinni. Þetta var 1972, ég var sautján ára gamall og nýkominn með bílpróf. Fyrsta daginn mætti ég í portið í Borgartúnið, þar fékk ég afhenta lykla að glænýjum Land Rover og var sagt að aka til Akureyrar. Þegar þangað kom var ég svo sendur áfram ásamt öðrum sama kvöld og endaði í Öxarfirði. Þar lögðumst við í fleti í skólastofu innan um hrjótandi karla. Þetta var upphafið að heilmiklu ævintýri,“ rifjar Magnús Valur upp þar sem við sitjum yfir kaffibolla á kaffihúsi í Garðabæ.
Magnús er fæddur í Reykjavík 1954 en hefur búið í Kópavogi stóran hluta ævinnar. „Það var frábært að alast upp í Hvömmunum í Kópavogi. Þetta var hverfi í uppbyggingu og fjöldi af börnum í hverju húsi. Ég á marga æskuvini frá þessum tíma þegar börn hlupu frjáls um, spiluðu fótbolta á öllum blettum sem fundust, upplifðu ævintýri í Hlíðargarðinum og skutust svo heim til mömmu í hádegismat,“ segir Magnús sem er elstur þriggja systkina. Bróðir hans er sex árum yngri og systir hans átján árum yngri.
Stærðfræði- og eðlisfræðibraut í MR tók við eftir grunnskóla. „Menntaskólaárin voru nú einn skemmtilegasti tími lífsins,“ segir Magnús brosandi en á þessum árum kynntist hann tilvonandi eiginkonu sinni Bjarnveigu Ingvarsdóttur.
Haustið 1975 skráði Magnús sig í byggingarverkfræði við Háskóla Íslands. Þau Bjarnveig byrjuðu að búa og eignuðust dóttur sína, Svölu Birnu, árið 1976. Eftir útskrift lá leið fjölskyldunnar til Englands í framhaldsnám. „Við bjuggum í Durham í Norðaustur Englandi. Norðaustrið var rótgróið kolanámu- og iðnaðarsamfélag á fallanda fæti og atvinnuleysi mikið. Ástandið í Bretlandi var dálítið sérstakt á þessum tíma, Thatcher nýkomin til valda og mikið umrót í þjóðfélaginu. En við upplifðum Durham á mjög jákvæðan hátt, og þótti umhverfið bæði skemmtilegt og notalegt.“
Magnús stundaði MBA-nám við Durham Univeristy Business School. „Þetta var ekki algengt nám á þeim tíma, en ég vissi snemma að ég vildi heldur vera rekstrarmegin í lífinu en hönnunarmegin, og því var þetta nám tilvalið.“
Þau Bjarnveig eignuðust aðra dóttur úti í Durham, Eddu Elísabetu, á brúðkaupsdegi Karls og Díönu árið 1981. „Það var varla að hjúkrunarfólkið hefði tíma til að taka á móti henni,“ segir Magnús glettinn, en Edda litla fékk hins vegar silfurpening frá breska ríkinu að launum fyrir að fæðast á þessum merka degi. Svo bættist strákur í hópinn 1988 en hann heitir Valur. Börnin hafa öll á einhverjum tímapunkti verið í sumarvinnu hjá Vegagerðinni og eiga þau góðar minningar frá þeim tíma.
Eins og margir af kynslóð Magnúsar byrjaði hann ungur að vinna á sumrin. Hann var sendill í Reykjavík frá 12 ára aldri, eitt sumar í byggingarvinnu og annað sumar á sveitabæ í Englandi. „Þegar ég var orðinn sautján og kominn með bílpróf fannst mér tímabært að gera eitthvað merkilegra. Þá bauðst mér að gerast mælingamaður hjá Vegagerðinni.“
Magnús var mælingamaður ófá sumur og allan þann tíma á Norðurlandi. „Ég var bara tittur til að byrja með, en á þessum tíma voru mælingarnar svo sem ekki flóknar þannig að ég var fljótur að læra,“ segir Magnús og tekur fram að á þessum árum, í byrjun áttunda áratugarins, hafi Vegagerðin verið allt í öllu þegar kom að vegagerð. „Þar voru reknir margir vegagerðarflokkar og maður þvældist á milli þeirra. Stundum var maður í nýmælingum að stinga út leiðir sem tæknimenn voru með í huga, hina stundina var maður í framkvæmdamælingum að setja út línu og hæð jafnt og þétt meðan vegurinn var lagður.“ Mælingamennirnir voru yfirleitt tveir til þrír saman, þeir fengu borgaða dagpeninga og voru því upp á sjálfa sig komnir með að finna gistingu. „Oft fengum við inni í skúrunum hjá vinnuflokkunum, eða jafnvel í tjöldum, en stundum fundum við gistingu á sveitabæjum eða gistihúsum,“ segir Magnús en alltaf höfðu þeir svefnpoka með sér og voru því viðbúnir hverju sem er.
Tíminn í mælingunum var lærdómsríkur og Magnús segir þetta hafa verið góðan grunn fyrir framtíðina. Til dæmis kynntist hann Norðurlandi mjög vel. Þá kynntist hann fjölmörgum vegagerðarmönnum sem voru honum samtíða síðar hjá Vegagerðinni. „Fyrsta sumarið kynntist ég Birni Ólafssyni sem var þá nýútskrifaður verkfræðingur og síðar yfir þjónustudeild. Einnig vil ég nefna Guðmund Svafarsson, umdæmisverkfræðing á Akureyri, Birgi Guðmundsson, sem lengi starfaði sem umdæmisstjóri í Borgarnesi, Guðmund Heiðreksson, hönnuð á Akureyri og Sigurð Oddsson, byggingatæknifræðing á Akureyri.“
Eftirminnilegasti tími Magnúsar sem mælingamaður var sumarið 1975. „Þá var ég við Mývatn þar sem var verið að leggja vegi. Við leigðum herbergi í skólanum á Skútustöðum og gistum þar megnið af sumrinu. Þá var í gangi hið svokallaða Kröfluævintýri sem snerist um að byggja fyrstu gufuaflsvirkjunina í Kröflu, rétt austan við Mývatn. Það var því mikill uppgangur á svæðinu, allt fullt af verktökum og ungu fólki í vinnu. Þessi virkjun var heitt mál á sínum tíma en það fór þó ekki betur en svo að það fór að gjósa í Kröflu og þetta hálf klúðraðist allt saman. En fyrir mig var þetta yndislegur tími og í minningunni var alltaf gott veður.“
Þar sem Magnús þekkti vel til í Vegagerðinni þótti tilvalið að hann ynni lokaverkefni sitt í byggingarverkfræðinni í tengslum við hana. Á þessum tíma, rétt fyrir 1980, fór af stað átak í að leggja bundið slitlag, svokallaða klæðingu, á malarvegi. „Byrjað var að prófa þessa aðferð fyrst árið 1978 og ég vann lokaverkefni mitt um klæðingar. Á þeim tíma var ég mikið niðri í Vegagerð og kynntist mönnum eins og Rögnvaldi heitnum Jónssyni og Sigursteini Hjartarsyni, sem voru miklir gúrúar í þessum fræðum og leiðbeinendur mínir í verkefninu.“
Magnús var því orðinn nokkuð vel að sér í vegagerð þegar hann útskrifaðist úr MBA-náminu 1981. „Þá hringdi Jón Birgir Jónsson, sem þá var forstöðumaður framkvæmdadeildar, í mig og bauð mér vinnu. Hann hefur líklega verið búinn að sjá að ég væri nothæfur,“ segir Magnús glettinn en hann hafði ekkert frekar hugsað sér að fara að vinna hjá Vegagerðinni eftir útskrift. „En ég þekkti vel til, sem var þægilegt, og því tók ég þessu góða boði.“
Fyrstu árin var Magnús í almennum verkfræðiverkefnum en fór síðan að sinna birgða- og vélamálum. „Ég byrjaði á því að þvælast fyrir eldri og reynslumeiri körlum, sem höfðu sinnt þessum málum lengi, en við náðum samt ótrúlega vel saman. Rekstrardeildin var sett á laggirnar í kringum 1990 og ég settur forstöðumaður deildarinnar.“
Verkefnin í kringum birgða- og vélamál voru ærin. Vélareksturinn á þessum árum var mjög mikill hjá Vegagerðinni. Þar voru vegheflarnir mest áberandi enda flestir vegir ennþá malarvegir. Vetrarþjónustan var einnig að aukast og um tíma rak Vegagerðin tíu til fimmtán vörubíla sem voru í snjómokstri á veturna og öðrum verkefnum á sumrin.
Miklar breytingar voru hins vegar framundan. Vegagerðin var að slitlagavæða vegakerfið en að auki var hún að breyta um vinnulag þannig að æ fleiri verkefni voru boðin út. „Við þurftum því að aðlaga okkur að breyttum tíma, fækka tækjum og svo þoldi birgðahaldið alveg að farið yrði með rekstrarlegum kambi í gegnum það. Menn sátu til dæmis með allt of mikið af birgðum. Þá var viðmiðið að betra væri að eiga en vanta,“ lýsir Magnús og segir það hafa verið skemmtilegt verkefni að glíma við.
Magnús var forstöðumaður rekstrardeildar til ársins 2000. „Þá tók ég smá hliðarspor og elti Jón Birgi í samgönguráðuneytið, en hann var þá orðinn ráðuneytisstjóri. Þar staldraði ég þó stutt við, enda fann ég að það átti ekki við mig,“ segir Magnús en nýtt tækifæri bauðst þá á réttum tímapunkti. „Guðmundur Svafarsson hætti sem umdæmisstjóri á Akureyri og Birgir Guðmundsson sem var þá umdæmisstjóri í Borgarnesi flutti sig til Akureyrar. Það kitlaði mig að sækja um stöðuna í Borgarnesi. Mér fannst líka spennandi að prófa að búa úti á landi, en þó í nálægð við Reykjavík,“ segir Magnús sem sótti um og fékk stöðu umdæmisstjóra í Borgarnesi. Svo heppilega vildi til að á sama tíma losnaði staða íslenskukennara við Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi sem Bjarnveig sótti um og fékk.
„Þetta var áskorun en líka mjög skemmtilegt. Fjölskyldan flutti í Borgarnes og bjó þar í 10 ár. Þá fluttum við aftur í Kópavoginn en ég hélt áfram að vinna í Borgarnesi næstu fimm árin og keyrði á milli,“ rifjar hann upp.
Þegar Magnús kom í Borgarnes sem umdæmisstjóri Vestursvæðis náði svæðið yfir Borgarfjörð, Snæfellsnes og Dali. Á þeim tíma voru umdæmi Vegagerðarinnar sjö, í takt við gömlu kjördæmin. Árið 2004 var skipulag Vegagerðarinnar endurskoðað og m.a. ákveðið að fækka umdæmunum í fjögur í samræmi við nýja kjördæmaskiptingu. Í kjölfarið var Magnús skipaður svæðisstjóri Norðvestursvæðis og við bættust bæði Vestfirðir og Norðurland vestra. „Það var ansi víðfeðmt svæði og verkefnin nánast óteljandi,“ segir Magnús sem tók saman á eitt kort allar þær vegaframkvæmdir sem farið var í á svæði hans meðan hann starfaði sem svæðisstjóri. (sjá kort)
„Þetta var mikið álag en líka rosalega skemmtilegt og mikill hasar. Ég hafði með mér gott fólk og alltaf hafðist þetta,“ segir Magnús en árið 2013 var aftur farið í endurskipulagningu hjá Vegagerðinni og var þá m.a. svæðaskiptingunni breytt nokkuð og stærstu nýframkvæmdaverkefnin færðust á forræði framkvæmdadeildar fremur en svæðisins.
Um eftirminnileg fyrstu verkefni nefnir Magnús Bröttubrekku, Vatnaleið, Fróðárheiði og leiðina fyrir Jökul. „Svo var það Gufudalssveitin sem hefur fylgt manni alla tíð. Allt ferlið í kringum þá framkvæmd hefur verið ævintýralegt og mjög lærdómsríkt. Þegar ég tók við Vestfjörðunum 2004 var þetta næsta verkefni sem fara átti í. Reyndin varð önnur og þetta hefur verið nokkur þrautaganga, en nú er þetta verkefni farið af stað og klárast vonandi í kringum árið 2025 eða 2026, rúmum tveimur áratugum síðar.“
Magnús segir starf sitt sem svæðisstjóri hafa verið það skemmtilegasta sem hann hefur unnið við. „Maður var í svo nánum tengslum við nærumhverfið, sveitarstjórnir, bændur og búalið, og verktaka. Samstarfsfólkið var líka einstakt og allt gekk þetta án mikill átaka.“
Svo kom að því að Magnús langaði að breyta til. Hann hafði verið í Borgarnesi í 15 ár, fjölskyldan var flutt í bæinn og mörg stærri verkefni höfðu verið færð á framkvæmdadeild. „Þegar Jón Helgason heitinn hætti sem framkvæmdastjóri Mannvirkjasviðs sótti ég um og fékk.“
Inntur eftir því hvort hann hafi áhyggjur af einhverju sem tengist vegagerð til framtíðar nefnir Magnús viðhald samgöngumannvirkja. „Maður er alltaf að átta sig betur og betur á því hvað þetta er að verða alvarlegt mál. Kannski hefur okkur hjá Vegagerðinni ekki tekist nægilega vel að selja pólitíkinni þörfina á því að viðhalda þessum mannvirkjum, en reynslan er sú að pólitíski hvatinn er að byggja nýtt; tvöfalda vegi, byggja brýr. Það hefur alltaf verið auðveldara að fjármagna nýframkvæmdir en viðhaldsverkefni,“ segir Magnús með áherslu og bætir við að smátt og smátt missi menn mannvirkin niður og á endanum þurfi stórátak til að bæta úr málunum.
„Mín skoðun er sú, að ef þú átt eign, þá verður þú fyrst og fremst að halda henni við. Ef þú átt eitthvað umfram eftir það getur þú bætt við. En auðvitað er þetta ekki svona einfalt. Þrýstingurinn er jú ekki aðeins frá pólitíkinni, heldur einnig frá samfélaginu sjálfu um að byggja nýtt.“
Magnús hefur sérstakar áhyggjur af hluta af vegakerfinu á Vestfjörðum. „Þar eru vissir vegir bara ónýtir. Svo eru að stóraukast þungaflutningar á vegum sem ekki voru hannaðir eða byggðir með slíka umferð í huga. Þeir eru bæði of mjóir og burðarlitlir, og það endar bara á einn veg,“ segir Magnús.
Magnús segir Vegagerðina átta sig fullkomlega á þessu ástandi og sé stöðugt að berjast fyrir því að fá meira fjármagn í viðhald. „Reyndar heyrist mér að fólk sé aðeins að vakna til vitundar í pólitíkinni og að gert sé ráð fyrir meira fjármagni í viðhald á næstunni.“
Mikið vatn hefur runnið til sjávar hjá Vegagerðinni síðan Magnús mætti í portið í Borgartúninu árið 1972. „Já, það hefur mikið breyst. Til dæmis er vinnumórallinn nokkuð annar. Þegar maður byrjaði að vinna þurfti maður að vinna töluverða yfirvinnu til að lifa sómasamlegu lífi, og vinnudagarnir voru æði langir,“ segir Magnús og bendir á að ný kynslóð sé ekki tilbúin til að forgangsraða vinnunni framar öllu. „Vegagerðin er orðin öðruvísi vinnustaður fyrir ungt fólk í dag. Áður voru hér nánast bara karlar, það er mikið breytt og konum hefur fjölgað mikið.“
Magnús segir hins vegar ýmislegt flóknara í dag en í gamla daga. Til dæmis var þá mun auðveldara að koma af stað framkvæmdum. „Það þurfi oft ekki meira til en að setjast inn hjá bóndanum og semja yfir kaffibolla. Nú er lagaumhverfið miklu flóknara, það þarf aðkomu fleira fólks og meiri sérhæfingu til að koma framkvæmdum á koppinn. Mat á umhverfisáhrifum er orðið mikilvægara og skoðanir fólks háværari í gegnum samfélagsmiðla. Allt þetta getur teygt mjög á tímanum.“
En hvað tekur nú við? Magnús hugsar sig um og segir glaðlega að líklega verði hann í því sama og hjá Vegagerðinni, að reyna að sinna viðhaldi. „Ætli ég verði ekki mikið upp í sumarbústað og að sinna viðhaldi á honum og húsinu í Kópavogi. Annars erum við hjónin bæði hætt að vinna og stefnum á að ferðast töluvert, og getum gert það núna hvenær sem er ársins sem er mikið frelsi,“ segir Magnús að lokum og hlakkar til næsta kafla lífsins.
Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 3. tbl. 2023, nr. 725 . Áskrift að Framkvæmdafréttum er frí og hægt að gerast áskrifandi með því að senda póst á askrift@vegagerdin.is.