Mikið hefur borið á vetrarblæðingum á vegköflum undanfarna daga, með tilheyrandi óþægindum fyrir vegfarendur. Vegagerðin þurfti að grípa til þess ráðs að setja nokkra vegi á hættustig og lækka hámarkshraða til að sporna við afleiðingum vetrarblæðinga. Ástandið hefur skánað og hættustigi verið aflýst. Þó eru nokkrir vegir enn á óvissustigi og ráðlegt að fylgjast með á umferdin.is.
En hvað eru þessar vetrarblæðingar? Hér verður leitast við að útskýra það.
Vetrarblæðingar á Vesturlandi í febrúar 2025.
Vetrarblæðingar á Vesturlandi í febrúar 2025.
Sveiflur í veðri, þar sem ýmist er til skiptis frost eða þíða, og mikið umferðarálag, ekki síst þungaflutningar, eru taldir helstu orsakaþættir vetrarblæðinga. Raki og bleyta safnast upp í burðarlaginu í þessum hitasveiflum á meðan neðri lög vegbyggingarinnar eru enn frosin. Þegar álag kemur frá dekkjum ökutækja á slitlagið í þessum aðstæðum, hefur vatnið sem safnast hefur saman í burðarlaginu enga aðra undankomuleið nema upp í gegnum slitlagið.
Þegar vatnið þrýstist upp í gegnum slitlagið tekur það bikið úr klæðingunni með sér, sem síðan festist í dekkjum. Bikið er klístrað og tekur einnig upp hálkuvörn sem getur legið á yfirborði vegarins, svo sem salt, og lausamöl sem er á veginum. Við þetta eykst rúmmálið verulega og verða að stórum bikklessum sem dreifast um vegyfirborðið.
Gömul burðarlög sem eru búin að missa burð eru mjög rík af fínefnum og ekki með frostþítt efni. Þetta veldur því að þessi gömlu burðarlög eru mun líklegri til að safna í sig vatni en þau sem eru ný, og þar með eru meiri líkur á vetrarblæðingum.
Lítilsháttar vetrarblæðingar eru þekkt vandamál á vegum með klæðingu en umfangsmiklar vetrarblæðingar hafa sem betur fer ekki verið algengar í gegnum tíðina, en þær eru alvarlegar þegar þær verða. Alvarlegt tjón getur orðið á farartækjum og slys á fólki í verstu tilfellum en sem betur fer er tjón mest í formi þrifa á dekkjum og undirvagni ökutækja en mælt er með að leita ráða hjá fagfólki hvað það varðar.
Um sex þúsund kílómetrar af tæplega 13 þúsund kílómetra vegakerfi Vegagerðarinnar er með bundnu slitlagi. Um 90 prósent af bundna slitlaginu er klæðing og 10 prósent malbik en þyrfti að vera mun meira m.v. álag á vegina. Þess má geta að malbik er um fimm sinnum dýrara en klæðing.
Vetrarblæðingar á Vesturlandi í febrúar 2025.
Vetrarblæðingar á Vesturlandi í febrúar 2025.
Vetrarblæðingar eru af öðrum toga en svokallaðar sumarblæðingar. Þá snýst vandinn um að yfirboð á klæðingu á vegum hitnar mikið á sólríkum sumardögum, en hitinn getur farið allt upp í 50-60 gráður. Við þessar aðstæður geta steinar klæðingarinnar sem jafnan eru efst, sokkið ofan í bikið undan umferðarálagi. Bikið verður því eftir í yfirborði klæðingarinnar og sest á dekk.
Klæðing er bundið slitlag sem er mun ódýrara en malbik. Það er fljótlegt í útlögn og ekki þarf blöndunarstöð. Við útlögn er steinefni dreift ofan á bindiefnið, sem er þynnt bik með leysiefni, vatni og lífolíu. Eftir að klæðing er lögð á veg er sópað yfir eftir ákveðinn tíma. Klæðing þolir allt að 2-3 þúsund bíla ÁDU (umferð á sólarhring) og er hagkvæmt þegar vel tekst til. Klæðing er síður hentug við þegar umferðarþungi er meiri, sér í lagi ef þungaumferð er mikil.
Malbik er blanda af steinefni, biki og stundum öðrum efnum. Þyngdarhlutföllin er 94-95 % steinefni og um 5-6 % bik. Malbik er blandað á blöndunarstöðum. Steinefnið er þurrkað við um 150-160°C hita og heitu og þunnfljótandi bikinu hrært saman við ásamt aukaefnum. Blandan er flutt heit og lögð í um 35-55 mm þykku lagi með sérstakri útlagningarvél. Síðan er valtað yfir þar til tilskilinni þjöppun er náð. Vegir með malbiki þola mun meiri og þyngri umferð en vegir með klæðingu en hins vegar er malbik fimm sinnum dýrara en klæðing eins og kemur fram hér að framan.