Verkfræðistofan VSÓ Ráðgjöf vinnur, fyrir hönd Vegagerðarinnar, að frumdrögum vegna breikkunar Vesturlandsvegar frá Hvalfjarðargöngum til Borgarness. Í nýrri vefsjá má skoða fyrirhugaða framkvæmd og senda inn ábendingar sem munu fylgja frumdrögum inn á næstu stig hönnunar. Í myndbandi er jafnframt farið vel yfir frumdrög framkvæmdarinnar og virkni vefsjárinnar.
Vegurinn á milli Hvalfjarðarganga og Borgarness er einn fjölfarnasti vegur landsins utan höfuðborgarsvæðisins og hefur umferð á honum farið vaxandi síðustu ár. Á veginum eru nokkrir slæmir kaflar með tilliti til sjónlengda og slysatíðni en á fimm ára tímabili urðu 47 slys á kaflanum, þar af þrjú alvarleg.
VSÓ Ráðgjöf vinnur að frumdrögum vegna breikkunar vegarins. Þar er gert ráð fyrir að breikka veginn í 2+1 veg, þar sem vegurinn mun skiptast á að vera tvöfaldur og einfaldur í sitt hvora áttina. Akstursstefnur verða aðskildar með vegriði og tengingum fækkað og gerðar öruggari.
Vefsjá þar sem skoða má þær tillögur sem koma fram í frumdrögunum má finna hér: https://vesturlandsvegur.netlify.app/
Þegar komið er inn á vefsjánna birtist lítill gluggi uppi í vinstra horni þar sem hægt er að velja um ýmsa möguleika. Bornir hafa verið saman fjórir valkostir við uppbyggingu vegarins og eru þeir allir sýnilegir í vefsjánni. Sú tillaga sem sameinar helstu markmið framkvæmdarinnar er 1c. Lítið mál er að súmma inn og út á kortinu og skoða tillögurnar í smáatriðum.
Óskað er eftir ábendingum frá vegfarendum, sérstaklega íbúum á svæðinu. Hægt er að senda ábendingu í gegnum vefsjána með því að smella á „senda ábendingu“ uppi í hægra horni. Tekið verður tillit til ábendinganna á næstu stigum framkvæmdarinnar.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir munu hefjast upp úr 2025 svo fremi sem nægt fjármagn sé tryggt. Framkvæmdum verður skipt í áfanga og vonir standa til að heildarframkvæmdin klárist á tíu árum.
Í myndbandi hér að neðan er farið vel yfir frumdrög framkvæmdarinnar og virkni vefsjárinnar.