Framkvæmdir við breikkun Reykjanesbrautar á kaflanum Krýsuvíkurvegur – Hvassahraun ganga mjög vel. Um er að ræða kaflann framhjá álverinu. Unnið er víða á kaflanum og útlit fyrir að verkinu ljúki á undan áætlun. Enn eru vandamál með hraðakstur á vinnusvæðinu sem skapar mikla hættu.
Í vegagerðinni sjálfri er lokið við styrktarlag við Hraunavík að mestu, en þar er verið að leggja strengi fyrir lýsingu. Unnið er að undirbúningi þess að malbika núverandi Reykjanesbraut um brú á Hraunavík, undirgöngin þar og eins göngustíga. Unnið er að frágangi við brúna auk rafmagnsvinnu.
Við Álhellu er unnið við að moka efni úr skeringum til efnisvinnslu sem verður nýtt í vegagerðina.
Við Rauðamel er lokið við uppsteypu á syðri brúnni og verið að fylla að brúarstöplum. Uppsteypa á brúarstöplum nyrðri brúar er í gangi.
Til að glöggva sig á staðháttum má sjá upplýsingar um verkið hér á síðunni, á þeirri síðu er að finna framkvæmdakort og eins myndband af framkvæmdinni þegar hún var fyrirhuguð (Undirgöng við Hraunavík bættust við eftir að myndbandið var gert.)
Verktaki er Íslenskir aðalverktakar hf. sem bendir á að enn er mikill hraðakstur um vinnusvæðið. Um helmingur vegfaranda virðir t.d. ekki hraðamörk við framhjáhlaupið við Rauðamel. Enn eru ökumenn hvattir til að virða þessar hraðatakmarkanir sem eru ekki settar á að ósekju. Hættan fyrir vinnandi fólk er raunveruleg.
Framundan er hjá ÍAV að vinna við burðarlög og jafna undir malbik við Hraunavík, fræsa Reykjanesbraut frá undirgöngunum að Hraunavík, malbika síðan. Malbika göngustíga norðan brautarinnar á þessu svæði. Þá verður unnið við fyllingar við Álhellu og brúarframkvæmdir við mislæg gatnamót við Straumsvík undirbúnar. Unnið er áfram með efnisvinnslu við Álhellu. Við Rauðamel verður unnið að fyllingum að brú, brúarstöplar nyrðri brúar steyptir og hafinn uppsláttur undir plötu. Mikil lagnavinna er í gangi og verður áfram við Straum.
Þó má reikna með að framkvæmdir verði í lágmarki fyrir og eftir Verslunarmannahelgina.
Það eru um 38 manns sem vinna að jafnaði við þessa framkvæmd á um 20 tækjum af öllum gerðum.
Verktakinn hefur einnig tekið upp fjölda myndbanda af verksvæðinu, sjá þau hér að neðan. Þau voru tekin í apríl og aftur núna í júlí.
Akið varlega og virðið hraðatakmarkanir.