2. apríl 2025
Vega­gerð­in vaktar jarð­hrær­ingar á Reykja­nesi

Vegagerðin fylgist grannt með stöðu mála á Reykjanesi vegna jarðhræringa og er í nánu samstarfi við Almannavarnir. Orðið hefur vart við skemmdir á vegum og hefur þegar verið ráðist í viðgerðir. Vegagerðin hefur biðlað til fólks sem er á ferðinni að fara varlega á meðan óvissuástand ríkir.

Strax í morgun var farið yfir ástand vega í og við Grindavík og verður þeirri vinnu haldið áfram næstu daga. Sjáanlegar skemmdirnar eru ekki umfangsmiklar en þegar er byrjað að laga yfirborðsskemmdir á Austurvegi. Umferð inn í Grindavík er takmörkuð eins og stendur. Lokunarpóstar eru á öllum leiðum að bænum.

Þá verður jarðkönnunarteymi kallað til Grindavíkur til að meta hvort nýjar sprungur hafi myndast eða breytingar orðið á þeim sem fyrir eru.

Vegagerðin í viðbragðsstöðu

Vegagerðin er í viðbragðsstöðu og vaktar náið skjálftavirknina á Reykjanesskaga, sem hefur færst til norðurs og í áttina að  Reykjanesbraut. Það er alltaf í forgangi að halda Reykjanesbraut opinni og greiðfærri fyrir umferð, enda er 30 þúsund manna byggð á Reykjanesi, þar eru lykilinnviðir og stærsti og mikilvægasti alþjóðaflugvöllur landsins.

Vegagerðin hefur lengi haft til skoðunar til hvaða aðgerða hægt væri að grípa til verði eldgos, jarðskjálftar sem valda skemmdum, mögulegt hraunrennsli, reykur eða öskufall nálægt Reykjanesbraut. Margar sviðsmyndir eru til skoðunar, þar á meðal mögulegar flóttaleiðir.

Hingað til hafa jarðhræringarnar ekki haft áhrif á Reykjanesbrautina. Búið er að kanna aðstæður eftir atburði gærdagsins, sér í lagi vegna kvikugangsins sem myndaðist, og skoða mannvirki sem eru við norðurenda sprungunnar. Þar hafa ekki sést skemmdir eða annað sem þarf að laga.

Viðgerðir í Grindavík í dag.

Viðgerðir í Grindavík í dag.

Yfirborðssprungur í Grindavík.

Yfirborðssprungur í Grindavík.

Yfirborðssprungur í Grindavík.

Yfirborðssprungur í Grindavík.