Vegagerðin vinnur nú að því að kortleggja sprungur og hugsanleg holrými við Grindavík með sérstökum jarðsjárdróna. Gögnin verða notuð til að forgangsraða viðgerðum í bænum og munu koma að góðum notum fyrir viðbragðsaðila og þá sem skipuleggja verðmætabjörgun í bænum. Einnig munu upplýsingarnar nýtast til að ákvarða hvaða viðgerðaraðferðum verður hægt að beita við helstu sprungusvæði.
Vegagerðin festi kaup á jarðsjárdróna á síðasta ári og var honum ætlað að auka nákvæmni rannsókna við hönnun vega. Vegagerðin átti fyrir jarðsjá sem er hluti af hátæknimælibíl og auk þess færanlega minni jarðsjá. Eftir jarðhræringarnar við Grindavík ákvað Vegagerðin að kortleggja undirlag helstu vega í bænum. Þar sem aðstæður í Grindavík eru ótryggar var ákveðið að nýta jarðsjárdrónann til verksins.
Raunar vildi svo illa til að dróninn sjálfur bilaði og því var brugðið á það ráð að fá tvo sérfræðinga frá framleiðanda drónans, Acecore í Hollandi, til að koma með nýjan dróna til landsins. „Hollensku drónaflugmennirnir komu með tvo dróna. Annar er samskonar og Vegagerðin á en einnig komu þeir með svokallaðan hybrid-dróna sem er með tvígengismótor og getur flogið lengur,“ segir Oddur Sigurðsson Hagalín, forstöðumaður stoðdeildar Vegagerðarinnar. Hann bendir á að gott sé að hafa tvo dróna svo hægt sé að fljúga öðrum meðan hinn er í hleðslu.
Drónaflugmennirnir hafa verið að störfum í Grindavík með starfsfólki Vegagerðarinnar frá því á sunnudag. Jarðsjáin, sem er frá sænska fyrirtækinu Radarteam, er fest neðan í drónann. Jarðsjánni er síðan flogið í hnitakerfi yfir það svæði sem mælt er hverju sinni, hálftíma í senn.
„Fyrsti áfanginn í verkefninu verður að kortleggja jarðveg undir helstu stofnleiðum inn og út úr bænum og styðja þannig við undirbúning verðmætabjörgunar,“ segir Oddur sem vonast til að sú vinna klárist í vikunni. Ef vel gengur er stefnt að því að hægt verið að skoðað helstu leiðir innanbæjar í samráði við viðkomandi aðila. Hann segir að ef farið verið í að kortleggja allan bæinn taki það þrjár til fjórar vikur.
Starfsfólk Vegagerðarinnar getur lesið úr frumgögnum úr jarðsjánni strax að loknu flugi en gögnin verða einnig send út til Svíþjóðar þar sem framleiðandi jarðsjárinnar mun aðstoða við greiningu þeirra. ISOR mun einnig koma að því að greina niðurstöður mælinganna. Þá mun sérfræðingur í þrívíddarlíkönum frá GPR software í Póllandi sjá um að útbúa þrívíddarlíkön af sprungunum í Wave 3d jarðsjárforritinu.
Oddur segir gögnin úr drónanum nokkuð nákvæmar en hugsanlega þarf að fljúga aftur, og þéttar yfir sumar sprungur til að skoða þær nánar. Hann segir aðeins óljóst hversu langan tíma taki að túlka gögnin og fá af þeim þrívíddarmódel. „Þetta hefur ekki verið gert áður svo við erum dálítið að renna blint í sjóinn.“
En mun fólk geta skoðað þessi gögn einhvers staðar?
Gögnin eru tæknilega flókin og erfitt fyrir þá sem ekki þekkja til, að lesa úr þeim og því liggur ekki fyrir með hvaða hætti væri hægt að gera niðurstöðurnar aðgengilegar. „Það hefur ekki verið ákveðið hvort og hvernig þessi gögn verða birt. Þau eru fyrst og fremst tæki til að forgangsraða viðgerðum og ákveða hvaða viðgerðaraðferðir henta best . Gögnin verða því, til að byrja með í það minnsta, ekki aðgengileg almenningi.“