11. október 2024
Vega­gerð­in hlýtur viður­kenn­ingu Jafn­vægis­vogar­innar

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, tók á móti viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar fyrir hönd Vegagerðarinnar, á árlegri viðurkenningarathöfn sem haldin var í vikunni.

Jafnvægisvogin 2024

Jafnvægisvogin 2024

Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) sem hefur að markmiði að auka jafnvægi milli kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á Íslandi. Að þessu sinni hlutu 93 fyrirtæki, 15 sveitarfélög og 22 opinberir aðilar viðurkenninguna, eða samtals 130 sem er metfjöldi. Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi var haft til hliðsjónar við matið en alls hafa 247 þátttakendur skrifað undir viljayfirlýsingu Jafnvægisvogarinnar. Kynjahlutfall í yfirstjórn Vegagerðarinnar er jafnt 50/50 en 60/40 í framkvæmdastjórn. Kynjahlutfallið meðal allra stjórnenda í stofnuninni er 63/37.

Dr. Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Háskóla Íslands og formaður Jafnvægisvogarinnar, bauð gesti velkomna á viðurkenningarhátíðina og hrósaði stjórnendum fyrir eftirtektarverðan árangur í jafnréttismálum. Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisræðherra, flutti ávarp og fór yfir stöðuna í jafnréttismálum í samfélaginu almennt.

Að hreyfiaflsverkefninu standa auk FKA, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Creditinfo, Deloitte,
Pipar\TBWA, Ríkisútvarpið, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá.

Gróðursetja 130 tré
Jafnréttislundur FKA í Heiðmörk var kynntur til leiks á ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar 2020, en lundurinn var fenginn hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Síðan þá hafa verið gróðursett tré í lundinum að lokinni hverri ráðstefnu, eitt fyrir hvern viðurkenningarhafa. Í ár verða því gróðursett 130 tré, en samtals verða þá 392 tré í Jafnréttislundinum.

Mælaborð Jafnvægisvogarinnar
Mælaborð Jafnvægisvogarinnar heldur utan um tölfræðilegar upplýsingar um jafnrétti. Í mælaborðinu koma fram helstu upplýsingar um stöðu kynjanna í íslensku atvinnulífi. Þar má einnig finna kynjahlutföll við brautskráningar úr háskólum, stöðu kynjanna innan atvinnugreina og GemmuQ kynjakvarðann fyrir skráð félög á markaði. Mælaborðið má skoða hér: https://www.fka.is/verkefni/jafnvaegisvogin/maelabord

Allar helstu upplýsingar um verkefnið má finna á heimasíðu verkefnisins:
https://www.fka.is/verkefni/jafnvaegisvogin