Vegagerðin hefur aukið eftirlit með vegum á skjálftasvæðinu á Reykjanesi og fer sérstaklega í eftirlitsferð ef skjálfti 4 eða stærri ríður yfir. Vegagerðin er í samstarfi við almannavarnir og yfirvöld á svæðinu varðandi allan viðbúnað ef kemur til þess að eldsumbrot verði.
Unnið er að því að fjölga vefmyndavélum á svæðinu til að geta fylgst betur með í rauntíma svo bregðast megi við eins hratt og mögulegt er.
Vegagerðin hefur að undanförnu flýtt framkvæmdum á vegum í nágrenni mögulegra eldsumbrota. Syðsti hluti Krýsuvíkurvegur hefur verið lagfærður sem og hlutar af Nesvegi sem liggur frá Grindavík vestur á Reykjanestá. Eins hefur vegur fyrir Festarfjall verið breikkaður og lagfærður og styrking á fláa sem skemmdir urðu á í skjálftum hefur verið boðin út. Framkvæmdir munu hefjast fljótlega.
Ástand vegakerfisins er þannig í góðu lagi en rétt að minna á að hvorki Krýsuvíkurvegur né Nesvegur eru hraðbrautir.