23. maí 2024
Vega­gerð, viðgerð­ir og varnar­garðar

Jarðskjálftar og eldgos á Reykjanesskaga hafa sett mikinn svip á starfsemi Vegagerðarinnar undanfarna mánuði. Frá því að jarðhræringar hófust í Grindavík í nóvember 2023 hefur Vegagerðin sinnt margvíslegum verkefnum í og við bæinn. Viðgerðir á vegum, vegagerð yfir hraun, aukin vetrarþjónusta, kortlagning á sprungum og holrýmum undir bænum og aðkoma að byggingu varnargarða eru á meðal helstu verkefna.

Vegagerðin hefur staðið vaktina í Grindavík vegna jarðskjálfta og eldgosa síðustu mánuðina. Í kjölfar öflugrar jarðskjálftahrinu þann 10. nóvember urðu miklar skemmdir á vegum í og við Grindavík. Í þeim hamförum fór Grindavíkurvegur í sundur með þeim afleiðingum að hann varð ófær um stund en strax sama kvöld var ráðist í viðgerðir á veginum, enda um að ræða afar mikilvæga leið milli Reykjanesbrautar og Grindavíkur. Nesvegur, vestan Grindavíkur til móts við golfvöllinn, fór einnig í sundur en sprunga liggur þvert í gegnum veginn. Um leið og leyfi fékkst frá Almannavörnum var ráðist í viðgerðir á Nesvegi svo hægt væri að halda honum opnum fyrir umferð.

Vegagerðin hefur í samvinnu við verktaka einnig komið að viðgerðum á götum innan Grindavíkur sem margar voru afar illa leiknar eftir jarðhræringarnar. Á meðal verkefna var að brúa Austurveg til bráðabirgða með tveimur samsíða gámafletum en sprunga liggur í gegnum veginn.

Bláalónsvegur fór undir hraun.

Bláalónsvegur fór undir hraun.

Unnið að viðgerðum á götum í Grindavík.

Unnið að viðgerðum á götum í Grindavík.

Vetrarþjónusta í forgang

Í vetur lagði Vegagerðin mikla áherslu á öfluga vetrarþjónustu til að halda leiðum til Grindavíkur opnum og eins greiðfærum eins og kostur var. Í vetrarþjónustu felst meðal annars að moka snjó af vegum og hálkuverja vegi eftir því sem við á. Vaktstöð Vegagerðarinnar miðlar öllum upplýsingum um lokanir og opnanir á vegum á road.is/umferðin.is

Suðurstrandavegur við Festarfjall lagfærður

Vegagerðin hefur einnig látið lagfæra og styrkja Suðurstrandarveg við Festarfjall á um 800 metra kafla. Sett var efni utan á vegfláa að sunnanverðu til að styrkja veginn. Einnig var ræsi sem liggur í gegnum veginn lengt í báðar áttir. Áður var búið að hliðra veginum um 1,5 metra og færa hann nær fjallinu á umræddum kafla. Var það gert til að auka umferðaröryggi vegfarenda. Vegfláinn hreyfðist til og seig í jarðskjálftunum sem urðu áður en gos hófst í Fagradalsfjalli 2021.

Varnargarður við Grindavík.

Varnargarður við Grindavík.

Unnið að viðgerðum á Grindavíkurvegi.

Unnið að viðgerðum á Grindavíkurvegi.

Kortlagning á sprungum

Frá því í janúar hefur Vegagerðin í samstarfi við verkfræðistofur unnið að því að kortleggja sprungur og hugsanleg holrými við Grindavík með sérstökum jarðsjárdróna, ásamt minni jarðsjá. Gögnin hafa meðal annars verið notuð til að forgangsraða viðgerðum í bænum, auk þess að greina hættusvæði, t.d. vegna holrýma. Gögnin koma jafnframt að góðum notum fyrir viðbragðsaðila og þá sem skipuleggja verðmætabjörgun í bænum. Upplýsingarnar munu enn fremur nýtast til þess að ákvarða hvaða viðgerðaraðferðum verður hægt að beita við helstu sprungusvæði.

Varnargarðar og Vegagerðin

Vegagerðin hefur haft aðkomu að framkvæmdum við varnargarða sem reistir hafa verið til að verja Grindavík, orkuverið í Svartsengi og Bláa lónið fyrir hugsanlegum afleiðingum eldsumbrota. Áætlaðar magntölur fyrir garða við Svartsengi eru nú 524.000 m3 en þó er eftir vinna við að loka skörðum vegna Blálónsvegar og síðan við Bláa lónið. Fyrir Grindavíkurgarða er áætluð staða í lok apríl um 850.000 m3. Vinnunni er ekki enn lokið en stefnt er að því að ljúka framkvæmdum í júlí við þá garða sem nú þegar hefur verið ákveðið að byggja. Eins og stendur er erfitt að segja til um verklok þar sem náttúran ræður för. Enn er eldgos í gangi sem getur haft veruleg áhrif á framhaldið.

Í tengslum við varnargarðagerðina er einnig unnið að færslu vega til að tryggja að leið í gegnum varnargarðanna sé greiðfær og að ekki þurfi að fylla upp í skörð í görðum þegar og ef til goss kemur með tilheyrandi hraunflæði. Einnig þarf í sumum tilfellum að lækka vegi til að þeir verði ekki hindrun fyrir hraun þar sem vegur liggur yfir þar til gerðar rennslisrásir.

Mynd hér í safninu til hliðar sýnir tilfærslu Grindavíkurvegar og Bláalónsvegar (bláar línur) við Grindavík.

Á myndinni sést að varnargarður L7 fer yfir núverandi Grindavíkurveg en nýr vegur liggur í boga og nær þannig að fara á milli varnargarða án þess að skaða virkni garðanna. Einnig sést að Bláalónsvegur lendir undir varnargarði (L8) og því verður hann tengdur inn á nýjan Grindavíkurveg. Búið er að taka þennan kafla á Grindavíkurvegi í notkun en hann er ekki fullbúinn og er því malarvegur. Gengið verður endanlega frá veginum þegar öruggt telst að hraun flæði ekki yfir hann.

Á myndinni sést að varnargarður L7 fer yfir núverandi Grindavíkurveg en nýr vegur liggur í boga og nær þannig að fara á milli varnargarða án þess að skaða virkni garðanna

Á myndinni sést að varnargarður L7 fer yfir núverandi Grindavíkurveg en nýr vegur liggur í boga og nær þannig að fara á milli varnargarða án þess að skaða virkni garðanna

Hraun yfir Grindavíkurveg

Útfærslur á Grindavíkurvegi við Svartsengi verða líklega á svipuðum nótum og þá eins og áður sagði til að tryggja að hraun komist ekki inn fyrir varnargarða.

Í þessum atburðum hefur Grindavíkurvegur og Bláalónsvegur við Svartsengi farið þrisvar sinnum undir hraun, eða þann 14. janúar, 8. febrúar og 17. Mars. Til að tryggja aðgengi að og frá Grindavík hefur Grindavíkurvegur verið endurbyggður yfir nýrunnið hraun ásamt því að útbúa nýja vegtengingu Bláalónsvegar við Grindavíkurveg innan við varnargarða í samvinnu Vegagerðarinnar, verkfræðistofa, verktaka og annarra sérfræðinga.

Það er ljóst að þessar aðgerðir ásamt nýjum Grindavíkurvegi við Grindavík eru gerðar þrátt fyrir talsverðar líkur séu á að Grindavíkurvegur lendi aftur undir hrauni en þá er bara endurbyggja að nýju.

Þessi grein birtist fyrst í   Framkvæmdafréttum 2. tbl. 2024, nr. 730. Áskrift að Framkvæmdafréttum er frí og hægt að gerast áskrifandi með því að senda póst á askrift@vegagerdin.is

Ógnarkraftar náttúrunnar.

Ógnarkraftar náttúrunnar.

Austurvegur var brúaður með gámafletum.

Austurvegur var brúaður með gámafletum.