30. maí 2022
Vatns­nesvegur (711) um Vestur­hóps­hólaá

Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar mun byggja brú yfir Vesturhópshólaá þar sem engin tilboð bárust í verkefnið Vatnsnesvegur (711) um Vesturhópshólaá í febrúar. Verkefnið felst í byggingu 17 m langrar brúar, nýbyggingu og endurbyggingu Vatnsnesvegar á 2,2 km kafla og byggingu heimreiða og tenginga. Stefnt er að því að bjóða út vegagerðina í vor.

Vatnsnesvegur er 70 kílómetra malarvegur frá Hvammstanga og út fyrir Vatnsnes. Vegurinn hefur verið til umfjöllunar síðustu ár enda ástand hans oft slæmt, ekki síst í vætutíð. Nokkur umferð er um veginn, íbúar á Vatnsnesi fara um hann daglega, meðal annars skólabíll, og ferðamenn aka hann til að skoða til dæmis Hvítserk og seli. Samkvæmt talningu árið 2019 aka 186 bílar veginn á sólarhring yfir árið (ÁDU) en meðalumferð á sumrin (SDU) eru 343 bílar.

Þegar opna átti tilboð í verkið Vatnsnesvegur (711) um Vesturhópshólaá í byrjun febrúar kom í ljós að engin tilboð höfðu borist. „Við höfum því ákveðið að skipta verkinu í tvennt. Vegagerðin verður boðin út sér en brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar á Hvammstanga mun taka að sér smíði brúarinnar,“ segir Gunnar Helgi Guðmundsson svæðisstjóri Norðursvæðis Vegagerðarinnar.

Inntur eftir því af hverju þessi hluti Vatnsnesvegar hafi orðið fyrir valinu svarar Gunnar að ástand brúarinnar hafi spilað þar stærsta hlutverkið. „Brúin var orðin mikill flöskuháls og farartálmi fyrir flutninga vegna þyngdartakmarkana.“

Gunnar bætir við að sex kílómetra kafli á vestanverðu nesinu, frá Kárastöðum og út að Skarði, verði boðinn út í apríl en samanlagt munu þessar tvær framkvæmdir kosta hátt í einn milljarð króna.

Þegar báðum þessum framkvæmdum er lokið eru eftir um 60 kílómetrar um nesið. Vegurinn er á samgönguáætlun en ekki gert ráð fyrir framkvæmdum fyrr en á síðasta tímabili áætlunarinnar, eftir árið 2030. Gunnar telur líklegt að þessir 60 kílómetrar verði boðnir út í þremur eða fjórum áföngum en getur ekki slegið föstu hvenær það verður.

Nánar um framkvæmdina

Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar á Hvammstanga mun sjá um brúarsmíðina yfir Vesturhópshólaá og hefst handa í haust þegar öðrum verkefnum sumarsins lýkur. Brúin verður eftirspennt plötubrú í einu hafi, 17 m löng, heildarlengd 19,13 m. Brúin verður með 9 m breiðri akbraut og með 0,5 m breiðum kantbitum, alls um 10 metra breið. Brúin er grunduð í lausu efni á steyptum staurum.

Brúin verður 20 til 24 metrum sunnan við núverandi brú sem er einbreið og í lélegu ástandi. Gamla brúin verður fjarlægð að framkvæmdum loknum nema landeigandi eða sveitarfélag óski eftir að taka við umsjón brúarinnar til annarra nota.

Vegagerðin verður boðin út að nýju. Í verkinu felst nýbygging Vatnsnesvegar á um eins kílómetra kafla, bygging nýrra heimreiða eða tenginga sem eru samtals um 400 m og endurbygging á um 1,2 km kafla milli Vesturhópshóla og Þorfinnsstaða á Vatnsnesi í Húnaþingi vestra. Þar sem brúin færist breytist veglínan lítillega, þó aðallega að austanverðu. Vegurinn verður 6,5 m breiður og lagður bundnu slitlagi. Heimreiðar og tengingar verða með malarslitlagi.

Vonast er til að bæði vegagerðin og brúarsmíðin klárist síðla á næsta ári, 2023.

Þessi grein birtist í 3. tbl. Framkvæmdafrétta 2022.  Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.