19. mars 2024
Útlit fyrir mjög slæmt veður á Vest­fjörð­um og Snæfellsnesi

Búast má við lokunum vegna, vegna ófærðar eða snjóflóðahættu, sunnudag 17. mars og fram á mánudag jafnvel, vegna spár um verulega slæmt veður sem verður verst á Norðvesturlandi. Reynt verður að halda vegum sem mest opnum en ljóst er að það verður tæplega nokkurt ferðaveður.

Vegagerðin hefur undirbúið aðgerðir vegna þessa veðurs sem reiknað er með að standi yfir sunnudag og mánudag.. Búast má við að áhrifa þess muni gæta allt frá Borganesi að Siglufjarðarvegi. Eins og spáin lítur út núna, þegar þetta er skrifað á laugadegi, þá verður mjög slæmt veður á Snæfellsnesi og Vestfjörðum og mun það hafa áhrif á samgöngur á öllu þessu svæði.

Það er miklar líkur á að færð muni spillast og vegir lokist hvorttveggja vegna veðurs og vegna aukinnar snjóflóðahættu. Því mikilvægt að fyrir vegfarendur að fylgjast vel með stöðunni næstu sólarhringa.

Allar upplýsingar eru síðan uppfærðar inn á umferdin.is . Og þangað er best að sækja upplýsingar eða hringja í síma 1777. Vaktstöð Vegagerðarinnar vaktar veðurspár og ástand, samræmir aðgerðir með þjónustustöðum Vegagerðarinnar og tryggir að nýjustu upplýsingar berist jafnóðum á umferdin.is.

Skyggni og færð mun versna á Holtavörðuheiði og verður reynt að halda henni opinni ef unnt er en mjög líklegt er að Brattabrekka lokist.

Snjóflóðahætta mun aukast með morgninum, einnig þarf að fylgjast vel með stöðunni á á Siglufjarðar- og Ólafsfjarðarvegi, Súðavíkur- og Kirkjubólshlíð, og Raknadalshlíð.  En Veðurstofan metur það sem svo að nokkur hætta sé á snjóflóðum á þessum svæðum.

Því mikilvægt að fólk sé ekki að ferðast að óþörfu á meðan veðrið gengur yfir. Vegfarendur þurfa að fylgjast vel með færð og veðri á umferdin.is áður en það leggur í hann eða hringja í 1777. Rétt er einnig að skoða vel veðurspánna á vedur.is til að sjá lengra fram í tímann og rýna í stöðuna ef ferðast á milli landshluta.