„Hjólreiðar sameina hreyfingu og útivist sem er frábært til að geta nýtt sér til að komast á milli staða,“ segir Katrín Halldórsdóttir, verkfræðingur hjá Vegagerðinni, í myndbandi um uppbyggingu hjólastíganets á höfuðborgarsvæðinu sem heyrir undir Samgöngusáttmálann.
„Stutt er síðan byrjað var að leggja hjólastíga sem eru eingöngu ætlaðir fyrir hjólandi vegfarendur. Samkvæmt könnun frá 2011 voru 4% ferða farnar á hjóli í Reykjavík en þeim fer fjölgandi sem kjósa þennan umhverfisvæna ferðamáta. Í ferðavenjukönnun frá 2019 kemur fram að hlutfallið er komið upp í 7%. Mikið hefur gerst undanfarin tíu ár. Töluverð uppbygging á góðum hjólaleiðum hefur átt sér stað og Vegagerðin fór að styrkja uppbyggingu stíga árið 2012 til helmings við sveitarfélögin,“ segir Katrín í myndbandinu.
„Það ber að vanda til verka við hönnun mannvirkja vegna þessa samgöngumáta, líkt og gert er í uppbyggingu vegakerfis okkar,“ segir Katrín og bendir á að árið 2019 komu út hönnunarleiðbeiningar fyrir hjólreiðar sem mörkuðu þáttaskil í gæðum á uppbyggingu hjólainnviða. Með leiðbeiningunum er leitast við að samræma uppbyggingu hjólaleiðanna, óháð sveitarfélögunum.
„Með tilkomu Samgöngusáttmála er lögð enn frekari áhersla á uppbyggingu hjólaleiða. Stofnaður hefur verið vinnuhópur sem í eru fulltrúar sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu og eiga aðild að Samgöngusáttmálanum og fulltrúi frá Vegagerðinni. Hópurinn hefur það verkefni að útfæra stofnleiðanet fyrir hjólreiðar á höfuðborgarsvæðinu, með áherslu á samgönguhjólreiðar og að forgangsraða framkvæmdum,“ segir Katrín.
Hugsað er um höfuðborgarsvæðið sem eitt svæði. „Stofnhjólanetið á að mynda góðar hjólaleiðir sem tengja saman sveitarfélög og helstu hverfi þvert á sveitarfélagsmörk með góðum innviðum sem verður gaman að hjóla eftir,“ upplýsir Katrín.
Samhliða uppbyggingu Borgarlínu verða jafnframt lagðar góðar hjólaleiðir. „Hugsað er um höfuðborgarsvæðið sem eitt svæði. Stofnhjólanetið á að mynda góðar hjólaleiðir sem tengja saman sveitarfélög og helstu hverfi þvert á sveitarfélagsmörk með góðum innviðum sem verður gaman að hjóla eftir. Ég er sannfærð um að hlutur hjólandi vegfarenda vaxi enn frekar með frekari uppbyggingu hjólaleiða,“ segir Katrín.