Vegagerðin leggur mikla áherslu á að minnka umhverfisáhrif vegarins um Teigsskóg
Fastanefnd Bernarsamningsins hefur skilað skýrslu vegna vegaframkvæmda í Teigsskógi. Vegagerðin hefur kynnt sér vel þær ábendingar sem koma fram í skýrslunni. Í nýjasta tölublaði Framkvæmdafrétta er að finna umfjöllun um vegagerð í Gufudalssveit.
Ísland gerðist aðili að Bernarsamningnum árið 1993 en samningurinn fjallar um verndun líffræðilegrar fjölbreytni í Evrópu og hvernig megi finna leiðir til þess að vernda bæði dýrategundir innan álfunnar sem og vistkerfin sem þau þrífast í.
Vegagerðin hefur kynnt sér vel skýrslu fastanefndar Bernarsamningsins og mun taka tillit til þeirra ábendinga sem þar koma fram og snúa að Vegagerðinni. Vegagerðin hefur lagt mikla áherslu á að minnka umhverfisáhrif vegarins um Teigsskóg. Til dæmis hefur verið gerð vöktunaráætlun, en gert er ráð fyrir að vakta einstaka þætti þar til tíu árum eftir að framkvæmdum lýkur. Sett hefur verið í loftið kortasjá þar sem skoða má framkvæmdina og áhrif á umhverfið. Á vef Vegagerðarinnar má einnig finna skýrslur og áætlanir í tengslum við framkvæmdina.
Upplýsingar um framkvæmdina, kortasjá fyrir vöktun í Gufudalssveit og skýrslur í tengslum við vöktun og framkvæmd má finna á vef Vegagerðarinnar.
Skýrslu fastanefndar Bernarsamningins má finna hér
Í síðasta tölublaði Framkvæmdafrétta 7. tbl. nr. 722 birtist grein um vegagerð í Gufudalssveit. Umfjöllunin er birt í heild sinni hér að neðan.
Vegagerðin leggur mikla áherslu á að minnka umhverfisáhrif vegarins um Teigsskóg að sögn Sigurþórs Guðmundssonar verkefnastjóra hjá Vegagerðinni sem hefur umsjón með framkvæmdum á Vestfjarðavegi (60) um Gufudalssveit. Framkvæmdir ganga vel en áfangar verksins eru fimm. Einum er lokið, þrír eru í framkvæmd og enn á eftir að bjóða út þann síðasta.
„Það er spennandi og skemmtilegt viðfangsefni að skila náttúrunni til baka eftir vegagerð. Það er of víða sem það hefur ekki verið gert og þá tekur það svæðin langan tíma að gróa upp á ný. Með því að beita þeim aðferðum sem við notum, til dæmis í Teigsskógi, er hægt að skila vegsvæðinu fallega til baka, og þá er nánast eins og vegurinn hafi fallið af himnum ofan um leið og framkvæmdum lýkur,“ segir Sigurþór.
Blaðamaður Framkvæmdafrétta settist niður með Sigurþóri til að fara yfir stöðu framkvæmda í Gufudalssveit og til hvaða aðgerða Vegagerðin hefur gripið til að minnka áhrif á umhverfi vegarins.
„Framkvæmdin í heild snýst um endurbyggingu og lagningu nýs Vestfjarðavegar frá Bjarkalundi og að Skálanesi við Kollafjörð. Þetta er rúm 20 kílómetra leið sem við höfum skipt niður í fimm áfanga,“ lýsir hann.
Fyrst má telja; Gufudalsá – Skálanes, endurbyggingu og breikkun vegar á 6,6 km kafla. Lokið var við það verk árið 2021. Næst Kinnarstaðir – Þórisstaðir (þverun Þorskafjarðar) sem felst í nýbyggingu Vestfjarðavegar á um 2,7 km kafla yfir Þorskafjörð en meðal verkþátta er bygging 260 m langrar steyptrar brúar. Þetta verk er í fullum gangi og á að ljúka sumarið 2024. Í þriðja lagi er það áfanginn; Þórisstaðir – Hallsteinsnes um Teigsskóg sem nánar verður fjallað um hér síðar. Í fjórða lagi; Djúpadalsvegur sem er nýbygging 5,7 km langs vegar inn Djúpafjörð sem nú er unnið að og á að ljúka í lok þessa árs. „Sá vegur verður í raun ekki hluti Vestfjarðavegar þegar allri framkvæmdinni verður lokið heldur mun þjóna sem tenging við núverandi Vestfjarðaveg þar til búið verður að bjóða út og klára síðasta áfanga verksins milli Hallsteinsness og Melaness, um 3,6 km leið,“ lýsir Sigurþór en í því verki felst þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar með þremur brúm. Búið er að hanna tvær þeirra og unnið að hönnun þeirrar þriðju. Ekki er komin tímasetning á hvenær sá áfangi verður boðinn út.
Mikil þörf var á nýbyggingu og endurbyggingu Vestfjarðavegar á þessum slóðum og framkvæmdirnar langþráðar. Vegurinn frá Bjarkalundi að Skálanesi er í dag 41,6 km langur, þar af eru 34 km með malarslitlagi. Á honum eru fjórar einbreiðar brýr, krappar beygjur og brattar brekkur. Vegurinn liggur um bratta hálsa, Hjallaháls og Ódrjúgsháls, en þegar framkvæmdum í Teigsskógi verður lokið í október á næsta ári sleppa ökumenn við að aka Hjallaháls.
Framkvæmdirnar hafa mikinn samfélagslegan ávinning að sögn Sigurþórs. „Þverun Þorskafjarðar ein og sér mun stytta leið milli byggðarlaga um 9 km og þegar öllum fimm áföngunum verður lokið hefur leiðin milli Reykjavíkur og Ísafjarðar verið stytt um 50 km frá árinu 2019 og eru þá Dýrafjarðargöng meðtalin.“
Framkvæmdin í Teigsskógi hófst í sumar en verkið ber formlega heitið Vestfjarðavegur (60) um Gufudalssveit, Þórisstaðir – Hallsteinsnes. Í því felst nýbygging Vestfjarðavegar á um 10,4 km kafla og einnig nýbygging Djúpadalsvegar á 200 metra kafla.
Vegurinn er alfarið byggður í nýju vegstæði en tengist nýjum Vestfjarðavegi í annan endann og nýjum Djúpadalsvegi sem er í byggingu í hinn endann.
Helstu magntölur eru:
Í verkinu felst einnig jarðvinna og lagning á raf- og fjarskiptalögnum fyrir veitufyrirtæki. Stefnt er að því að verkinu verði að fullu lokið í október 2023.
Hafist var handa við framkvæmdir um Teigsskóg í sumar en verktaki er Borgarverk. Fyrsta verk var að marka fyrir veglínunni og höggva skóginn á því svæði. Trén voru síðan kurluð og efnið látið liggja ofan á sverðinum. „Vinnan gengur vel en það er dálítið sérstakt að við flytjum ekkert efni annars staðar að í fyllingar, það kemur allt saman úr veginum sjálfum,“ segir Sigurþór og útskýrir að fylling sé það kallað þegar fylla þarf í dældir og gil í landslaginu til að vegurinn verði nokkurn veginn jafnhár. „Efnið í fyllingarnar fáum við úr skeringum en það er þegar við þurfum að fjarlægja efni úr vegstæðinu þegar farið er í gegnum hóla eða hæðir.“
Ofan á fyllingarnar kemur styrktarlag sem einnig er unnið á leiðinni úr bergskeringum. Efni í burðarlag vegarins er fengið úr vegsvæðinu á Djúpadalsleið.
Mikil áhersla er lögð á að halda í staðargróður í framkvæmdinni. „Við viljum halda gróðri sem bestum og ná að endurheimta hann raunverulega,“ segir Sigurþór en það er gert með því að fletta um 20 cm ofan af gróðurtorfum og svarðlagi í vegstæðinu. Svarðlagið er síðan endurnýtt með því að leggja það aftur út í vegkanta samhliða því sem vegurinn er byggður upp. „Þetta er töluverð áskorun því við erum að flytja til efni í veglínunni, tökum upp svarðlagið á einum stað og geymum annars staðar. Þetta er tímafrekt og svo er dálítil pressa að nýta efnið sem fyrst en talað er um að slíkur gróður megi bíða í tvær vikur. Mér hefur þó sýnst að sá tími geti verið aðeins lengri hér á Íslandi þar sem er kaldara og rakara,“ lýsir Sigurþór en svipuð aðferð hefur verið notuð í öðrum áföngum Vestfjarðavegarins.
Gróðurinn á þessum tíu kílómetra kafla er æði fjölbreyttur. Þar má finna lyngvaxið land, kjarr, ræktuð tún, graslendi, votlendi, mela, mýrar, móa, skóga og sjávarfitjar. Sigurþór segir nokkuð flókið að reyna að skapa aðstæður í vegsvæði líkt og voru fyrir. Það þurfi að vanda til verka til að ekki komist á legg plöntur sem ekki eru fyrir á svæðinu.
„Það eru mikil verðmæti í svarðlaginu hér á Íslandi og mikilvægt að nýta sem mest af því. Maður hefur í gegnum tíðina séð vegsvæði þar sem svörður hefur verið tekinn í burtu og skeringar eru berar. Það er ekki fallegt.“
Sigurþór segir slíkar tilfæringar á svarðlagi þó síður en svo nýjar af nálinni. „Menn voru að prófa að flytja til gróðurtorfur á Grafningsvegi fyrir fjöldamörgum árum og síðan hefur þetta verið gert á Þingvallavegi og Dettifossvegi. En hér á Vestfjarðavegi erum við líklega að gera þetta á stærri skala og með betur úthugsuðum aðferðum.“
Aðferðin er heldur ekki sér íslensk heldur hefur verið notuð með góðum árangri víða um lönd. Til dæmis í Bandaríkjunum og Noregi. „Við leituðum víða fanga við undirbúning verksins og var Náttúrustofa Vestfjarða með okkur í þessari vinnu en einnig leituðum við ráða hjá fleiri sérfræðingum á þessu sviði. Okkur var í mun að vera vel undirbúin þegar kæmi að framkvæmdinni og því fengum við Náttúrustofu Vestfjarða til að halda námskeið fyrir okkur hjá Vegagerðinni, starfsmenn og yfirmenn Borgarverks. Þar var nákvæmlega skýrð áætlunin um undirbúning, vinnu og frágang.“
Í mati á umhverfisáhrifum og útboðsgögnum voru skilgreiningar á því hvaða skilyrði Vegagerðin og verktakinn þyrftu að uppfylla varðandi umhverfisþáttinn. Til dæmis átti vegsniðið að vera þröngt, rækta átti skóg sambærilegan við þann sem tapaðist og endurheimta átti votlendi einhvers staðar á móti því sem tapaðist.
Umfram það bar Vegagerðinni ekki skyldu til að gera meira. „Við hefðum því getað farið þarna í gegn á hefðbundinn hátt með þröngu vegsniði, en það langaði okkur ekki. Við vildum gera betur og nýta allan þennan gróður og þetta dýrmæta svarðlag,“ segir Sigurþór.
Í upphaflegum gögnum er tiltekið að vegsnið í gegnum Teigsskóg þurfi að vera þröngt með bröttum vegfláum og var það hugsað til að vegurinn tæki minna svæði til sín. „Við höfum hins vegar verið í samræðum við sveitarfélagið og landeigendur um að fá að breikka vegsniðið og draga þannig aðeins úr bratta á vegfláum og skeringum. Þetta viljum við gera til að tryggja að gróður geti örugglega vaxið þar. Ef fláar og skeringar eru of brattar vex ekkert á þeim og vegurinn verður meira áberandi en ella,“ segir Sigurþór og bendir á að ýmis svona atriði geti skipt höfuðmáli.
„Það eru ekki alltaf dýrustu hlutirnir sem eru flóknastir í framkvæmdunum heldur atriði eins og þessi sem eru fremur ný fyrir okkur. Þó þetta hafi verið gert í einhverjum mæli áður hér á landi hefur ekki verið gerð jafn nákvæm kortlagning á gróðurfari og áætlun um hvernig skuli vinna með þær upplýsingar.“
Meðal þess sem er gert til að endurheimta staðargróður er að safna fræjum úr birkiskóginum. „Ef skógurinn kemur ekki upp sem skyldi er ætlunin að rækta tré með þessum fræjum,“ lýsir Sigurþór en bendir á að skógurinn sé í talsverðum vexti. „Við höfum því góða trú á því að þetta gangi vel.“
Sigurþór hlakkar til að sjá hvernig til tekst. „Þetta er þróunarverkefni og því höfum við fengið til liðs við okkur kunnáttufólk í faginu,“ segir Sigurþór en ýmsir sérfræðingar fylgjast með að framkvæmdin gangi eins og best verður á kosið og svo hefur Vegagerðin fengið Umhverfisstofnun og Náttúrustofu Vestfjarða til að vakta einstaka þætti í allt að tíu ár eftir að framkvæmdum lýkur.
„Útbúin hefur verið vöktunaráætlun til næstu ára til að meta árangurinn af endurheimtinni,“ lýsir Sigurþór.
Áhugasamir geta einnig nálgast allt efni sem tengist framkvæmdinni á vef Vegagerðarinnar. Þar má finna allar skýrslur, framkvæmdaleyfi, rannsóknaskýrslur og vöktunaráætlanir.
Útbúin hefur verið kortasjá sem verður opin almenningi. Þar verður hægt að velja ýmsar þekjur, til dæmis er hægt að skoða hvar er að finna votlendi, ræktað skóglendi, náttúrulegt birki, marhálm, fjörugerðir og þangskurð. Einnig má þar finna friðlýst svæði, námur, vegagerð, friðlýst æðarvarp og náttúruminjar.
Töluvert er af fornminjum á þessum slóðum sem hafa verið kortlagðar og hægt er að skoða í kortasjánni. Stór ástæða fyrir því að kurla þurfti skóginn sem var höggvinn var til að geta skoðað betur fornminjar. „Verktakinn er einnig meðvitaður við sína vinnu að kalla til fornleifafræðinga ef eitthvað finnst af mögulegum fornminjum.“