27. maí 2024
Umferðarör­yggi bætt við gatna­mót Kringlu­mýrar­brautar og Miklu­brautar

Unnið verður að því að bæta umferðaröryggi á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar í Reykjavík nú í sumar. Markmiðið er að bæta umferðaröryggi þeirra sem ganga og hjóla um þessi fjölförnu gatnamót. Framkvæmdir hefjast 28. maí og áætlað er að þær standi til 19. ágúst næstkomandi.

Í verkinu felst að:

  • Gangbrautir verða á öllum framhjáhlaupum með hraðalækkandi aðgerðum. Til skýringar þá er framhjáhlaup sú gata sem fer til hægri af aðalbraut og leiðir umferð framhjá ljósastýrðum gatnamótum.
  • Lýsing verður bætt við leiðir gangandi og hjólandi vegfarenda um gatnamótin. 
  • Viðvörunarhellur verða lagðar við allar þveranir við framhjáhlaup. Viðvörunarhellur eru hellur með upphleyptum hnöppum og eru yfirleitt hvítar eða rauðar að lit, svo þær skera sig úr umhverfinu. Þær eru t.d. notaðar við enda gangbrauta, við efsta þrep trappa og þar sem stígur fer í sitthvora áttina. Þær eru notaðar í svokallaðri algildri hönnun eða hönnun fyrir alla, og eru t.d. hugsaðar fyrir þá með skerta sjón að átta sig betur á gönguþverunum.
  • Gönguleiðir í miðeyjum við framhjáhlaup verða lagfærðar.

Búast má við töfum fyrir akandi, gangandi og hjólandi umferð. Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og ökumenn eru sérstaklega beðnir um að sýna tillitssemi meðan á framkvæmdum stendur og aka með varúð um vinnusvæðið.

Verkfræðistofan Efla hannaði breytingarnar. Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar.

Kort af framkvæmdasvæðinu.

Kort af framkvæmdasvæðinu.

Gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar.

Gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar.