Mikil aukning varð í umferð á höfuðborgarsvæðinu í janúar en rétt einsog á Hringveginum var umferðarmetið frá árinu 2019 slegið en umferðin var um prósenti meiri en þá. Umferðin var síðan heilum 12 prósentum meiri í nýliðnum janúar en í sama mánuði fyrir ári síðan.
Milli mánaða 2023 og 2022
Líkt og á Hringvegi varð mjög mikil aukning í umferð í nýliðnum janúar á höfuðborgarsvæðinu, fyrir þrjú lykilmælisnið Vegagerðarinnar, borið saman við sama mánuð á síðasta ári. Umferðin reyndist vera 12,1% meiri en á síðasta ári, sem er svipuð aukning og varð á Hringvegi, og 1,0% meiri en fyrra met á höfuðborgarsvæði, sem sett var árið 2019.
Mest jókst umferðin um mælisnið á Hafnarfjarðarvegi eða um 15,0% en minnst um mælisnið ofan Ártúnsbrekku eða um 10,2%.
Umferð eftir vikudögum
Umferðin reyndist hafa aukist mjög mikið alla vikudaga nema á mánudögum, en þar varð ,,aðeins“ 2,6% aukning. Mest jókst umferð á laugardögum eða um 25,3%.
Mest var ekið á föstudögum, í nýliðnum janúar, og minnst á sunnudögum.