2. ágúst 2024
Umferð á Hring­vegi í júlí aldrei meiri en í ár

Umferðin á Hringvegi í nýliðnum júlímánuði reyndist 1% meiri en í sama mánuði í fyrra og þá hefur umferðin aldrei verið meiri. Fram að þessu hafði meðalumferðaraukning í júlí verið 2,8%, svo þessi aukning nú er talsvert undir meðallagi. Mest jókst umferð um Norðurland, eða 11,4% en á Suðurlandi mældist 2,5% samdráttur. Af einstaka mælipunktum jókst umferð mest á Möðrudalsöræfum, eða um tæp 17%.

Milli mánaða

Umferðin í nýliðnum júlí mánuði reyndist 1% meiri en í sama mánuði á síðasta ári, fyrir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi. Fram að þessu hafði meðalumferðaraukning í júlí verið 2,8%, svo þessi aukning nú er talsvert undir meðallagi. Þessi litla aukning leiddi engu að síður til þess að slegið var umferðarmet um Hringveginn í júlí, sem aftur leiðir til þess að líklega verður þetta nýtt heildarmet, þar sem júlí er jafnan umferðarmesti mánuður ársins á Hringveginum. Alls fóru samtals 126 þúsund ökutæki yfir mælisniðin 16 á dag í júlí. Hafa ber í huga að sama ökutækið getur komið fram á fleiri en einum stað.

Mest jókst umferð um Norðurland eða 11,4% en 2,5% samdráttur varð yfir mælipunkt á Suðurlandi. Af einstaka mælistöðum jókst umferð mest yfir mælipunkti á Möðrudalsöræfum, eða um tæp 17%. Mest dróst umferð saman um mælipunkt við Hvolsvöll eða um 6,2%.

Umferð frá áramótum

Nú hefur uppsöfnuð umferð aukist um 3,9%, frá áramótum, miðað sama tímabil á síðasta ári. Mest hefur aukningin orðið um Suðurland eða 5,8% en 0,9% samdráttur hefur orðið yfir mælipunkt á Austurlandi, sem jafnframt eina svæðið með samdrátt, að svo komnu.

Umferð eftir vikudögum

Frá áramótum hefur mest verið ekið á föstudögum, en minnst á laugardögum. Umferð hefur aukist alla vikudaga en mest á þriðjudögum og sunnudögum, eða 5,1%. Minnst hefur umferð aukist á miðvikudögum eða 2,5%.

Horfur út árið 2024

Eftir því sem liðið hefur á sumarið hafa horfur út árið 2024 farið minnkandi. Núna gerir spálíkan umferðardeildar ráð fyrir því að umferð geti aukist um 3,4%, sem er mun lægra en gert var ráð fyrir í upphafi árs og sumars.  Ástæðan fyrir minni væntri aukningu er fyrst og fremst sú að samdráttur varð í júní og mun minni aukning varð í júlí, en meðalþróun gerði ráð fyrir.

Gangi þessi spá eftir verður umferðaaukning í ár rétt yfir meðallagi, frá árinu 2005, sem er 3,2%.

Skoða umferðartölfræði