18. febrúar 2025
Tvöföld­un Reykja­nesbrautar á undan áætl­un

Góður gangur er í framkvæmdum vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar á kaflanum milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns. Útlit er fyrir að verkinu ljúki á undan áætlun, en upphaflega var gert ráð fyrir verklokum um mitt ár 2026. Nokkuð hefur verið um hraðakstur í gegnum vinnusvæðið, sem getur skapað hættu fyrir starfsfólk sem og vegfarendur.

Anna Elín Jóhannsdóttir, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni, segir að í heildina hafi framkvæmdir gengið hratt og vel fyrir sig þrátt fyrir að unnið sé á umferðarþungu svæði. „ÍAV, verktakinn sem vinnur að framkvæmdinni, á hrós skilið fyrir góða skipulagningu og vel unnið verk,“ segir hún.

Búið er að malbika hluta af kaflanum, eða frá Hafnarfirði að álverinu, auk þess sem vegrið og veglýsing hafa verið sett upp. Til stendur að vinna í lögnum Carbfix og Ísal á núverandi Reykjanesbraut og hleypa umferð á nýja kaflann meðan á þeirri vinnu stendur. Að því loknu verður tvöföldun Reykjanesbrautar tilbúin frá Hafnarfirði að Straumsvík, sem gæti mögulega verið með vorinu ef allt gengur samkvæmt áætlun.

Helstu áskoranir hafa verið mikil umferð og hraðakstur á Reykjanesbrautinni, að sögn Önnu Elínar. „Vinnusvæðamerkingar hafa verið áskorun en það hafa því miður orðið slys þrátt fyrir merkingar samkvæmt reglum. Við sem stöndum að verkinu þ.e. teymi verkkaupa, eftirlits og verktaka höfum verið í stöðugri úrbótavinnu og leitað leiða til að tryggja öryggi vegfarenda sem best. Að vinna slíkt verkefni í íslensku vetrarveðri er einnig áskorun,“ upplýsir Anna Elín.

Þessa dagana er unnið við ný undirgöng við Straumsvík og ætti þeirri vinnu að ljúka síðar á árinu. „Við Straumsvík er bæði verið að breikka og lengja eldri undirgöng til að koma fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar sem og breikkun fyrir göngu- og hjólastíg. Einnig stendur yfir vinna við undirgöng hjá Straumi, þar sem búið er að tengja vatnslögn, leggja háspennustreng og fjölpípur fyrir fjarskiptafyrirtæki,“ segir Anna Elín.

Í Rauðamel, norðan Reykjanesbrautar, er unnið að efnisvinnslu. Tæki voru lánuð til að vinna við varnargarða í Grindavík og það hefur hægt aðeins á framvindu þessa verkþáttar.

Við Hraunavík líkur senn vegskeringum og fyllingum og þar hefur auk þess verið unnið að breytingu á vatns- og raflögnum.

Tækjabúnaður sem notaður er við framkvæmdirnar samanstendur m.a. af beltagröfum, hjólagröfu, búkollu, valtörum, hjólaskóflu og vatnsbíl.

Hér fyrir neðan má sjá myndbönd sem eru tekin á verkstað.

 

Framkvæmdir vegna breikkunar Reykjanesbrautarinnar.

Framkvæmdir vegna breikkunar Reykjanesbrautarinnar.

Unnið er við ný undirgöng við Straumsvík.

Unnið er við ný undirgöng við Straumsvík.

Framkvæmdir á breikkun Reykjanesbrautarinnar,

Framkvæmdir á breikkun Reykjanesbrautarinnar,

 Framkvæmdir ganga samkvæmt áætlun.

Framkvæmdir ganga samkvæmt áætlun.