Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, opnuðu formlega í dag nýjan Þverárfjallsveg, nýjan kafla á Skagastrandarvegi og nýja, tvíbreiða brú yfir Laxá í Refasveit. Klippt var á borða við ný gatnamót Þverárfjallsvegar og Skagastrandavegar að viðstöddu fjölmenni.
Heildarvegalengd nýrra vega og brúar er um 11,8 km en einnig voru byggðar nýjar tengingar og heimreiðar, samtals um 4,5 km að lengd. Nýr Þverárfjallsvegur og nýr kafli á Skagastrandarvegi bæta samgöngur á milli þéttbýlisstaða á Norðurlandi vestra, auka umferðaröryggi vegfarenda og íbúa og tryggja greiðari samgöngur á svæðinu. Nýju vegirnir eru með bundnu slitlagi og uppbyggðir með tilliti til snjóa. Hönnunarhraði veganna er almennt miðaður við 90 km/klst. hámarkshraða.
Við opnunina sagðist Sigurður Ingi ekki vera í vafa um það að framkvæmdirnar verði veruleg samgöngubót fyrir íbúa á svæðinu. ,,Þessar framkvæmdir koma vonandi til með að draga úr ferðatíma og bæta öryggi vegfarenda til muna. Samgöngubæturnar munu styðja við atvinnulíf á svæðinu, svo sem fiskflutning og ferðaþjónustu, enda vegurinn hluti af hinni nú heimsfrægu Norðurstrandaleið. Ásamt því bind ég vonir við að þær muni auðvelda ferðir um Norðurland vestra og stuðla að betri tengingu svæðisins við landið allt,“ sagði Sigurður Ingi.
Bergþóra sagði að um væri að ræða langþráða veglagningu, enda fyrirliggjandi vegakerfi ekki byggt fyrir það álag sem á því er. ,,Framkvæmdin endurnýjar vegi þar sem umferð hefur tvöfaldast frá aldamótum og sem höfðu lítinn burð og marga alvarlega ágalla hvað varðar umferðaröryggi, svo sem fjölmargar blindhæðir eru t.d. vitni um. Framkvæmdin mun tengja saman þéttbýlisstaði á Norðurlandi vestra mun betur en áður,“ sagði hún.
Framkvæmdin fólst í byggingu nýs Þverárfjallsvegur í Refasveit frá Hringvegi norðan Blönduóss að núverandi Þverárfjallsvegi, um 8,5 km að lengd, byggingu nýs Skagastrandarvegar frá nýja Þverárfjallsveginum, yfir nýja brú, að núverandi Skagastrandarvegi norðan við Höskuldsstaði í Skagabyggð, um 3,3 km að lengd.
Á Skagastrandarveg var byggð ný 106 m löng brú yfir Laxá í Refasveit. Brúin er í þremur höfum, steinsteypt og eftirspennt. Brúin er sú fjórða sem byggð er yfir Laxá svipuðum slóðum. Sú fyrsta var byggð árið 1876 og var 13 metra löng timburbrú sem var yfir þröngt gil sem nefnist Ámundahlaup og er vestan við nýju brúna. Næsta brú var byggð á árunum 1924-1927, var það járnbent steinbogabrú. Þriðja brúin var byggð árið 1973, 75 metra löng, einbreið bitabrú.
Aðdraganda þessa verkefnis má meðal annars rekja til þess að sá hluti Skagastrandarvegar sem liggur frá Hringvegi að Laxá var kominn til ára sinna og með lítið burðarþol, hæðar og planlegu var ábótavant fyrir mikla umferð ásamt því að á honum eru á annan tug blindhæða.
Umferð, ekki síst þungra bíla jókst verulega fyrir um 20 árum þegar nýr vegur yfir Þverárfjall til Sauðárkróks var tekinn í notkun. Ekki var möguleiki að endurbyggja veginn á sama stað þar sem gamli vegurinn liggur um vatnsverndarsvæði Blönduósbæjar.
Einnig var komið að nauðsynlegri endurnýjun brúarinnar yfir Laxá í Refasveit sem byggð var fyrir fimmtíu árum, eða árið 1973. Gamla brúin er veglegt mannvirki en hún er einbreið og aðkoman að henni með takmarkaðri vegsýn.
Neðribyggðarvegur (741), sem nú verður aflagður, var lítið sem ekkert uppbyggður. Hins vegar var á honum töluverð þungaumferð vegna sorpurðunar í Stekkjarvík.
Umferð um þetta svæði hefur aukist töluvert á undanförnum árum. Um aldamótin var umferðin 501 bíll á sólarhring yfir sumartímann á gamla Skagastrandarveginum. Á síðasta ári var umferðin komin upp í tæplega 1100 bíla á sólarhring yfir sumartímann. Því hefur orðið tvöföldun á fjölda bíla frá aldamótum. Þá hefur orðið töluverð aukning þungaumferðar vegna sorpurðunar og fiskflutninga, sér í lagi síðan Þverárfjallsvegurinn yfir til Sauðárkróks var opnaður fyrir um tuttugu árum. Það hefur aukið álag á vegi sem ekki voru hannaðir fyrir slíka umferð.
Verkið var boðið út sumarið 2021 og tilboð opnuð 17. ágúst. Þrjú tilboð bárust og var samið við Skagfirska verktaka sem áttu lægsta tilboð upp tæplega 1,5 milljarð kr. eða 108% af kostnaðaráætlun. Heildarkostnaður var áætlaður um 2,2 milljarðar fyrir utan verðbætur. Að Skagfirskum verktökum standa þrjú skagfirsk verktakafyrirtæki, Steypustöð Skagafjarðar, Víðimelsbræður og Norðurtak.
Vegnúmer breytast við þessar framkvæmdir. Nýi langi stofnvegurinn (8,5 km) verður hluti af Þverárfjallsvegi með nýju vegnúmeri (73). Nýi kaflinn með nýrri brú yfir Laxá verður þá fyrsti hluti Skagastrandarvegar (74). Gamli Skagastrandarvegurinn frá Hringvegi að Laxá mun þá fá heitið Refasveitarvegur en auk þess verður lagður af einn héraðsvegur, Neðribyggðarvegur (741).
Verkið hefur gengið samkvæmt áætlun en verklok voru áætluð í nóvember á þessu ári. Umferð var hleypt á nýja veginn í október síðastliðnum og undanfarið hefur verið unnið að lokafrágangi.