Samið hefur verið við Steypudranga ehf. í Vík um endurbyggingu Þjórsárdalsvegar (32-03), frá Hallslaut að Fossá.
Verkið felst í endurbyggingu Þjórsárdalsvegar, frá Hallslaut í vestri að Fossá í austri. Vegurinn er fremur illa farinn, klæðingin sprungin og skemmdir á köntum. Fræsa þarf núverandi klæðingu, styrkja veginn og klæða aftur með bundnu slitlagi. Vegkaflinn sem um ræðir er 2,6 km að lengd og að jafnaði 6,5 m breiður. Verktaki mun vinna í vegfláum jafnóðum eftir því sem verkinu vindur fram.
Umferðin á Þjórsárdalsvegi er nokkur, en meðalumferð á dag yfir árið (ÁDU) er 457 bílar en mest er umferðin á sumrin þegar 693 bílar fara um veginn á dag yfir sumarmánuðina (SDU). Umferðin verður um framkvæmdasvæðið og hraðinn tekinn niður meðan á þeim stendur.
Tilboð Steypudrangs hljóðar upp á 55,8 milljónir króna og er 7,4% yfir kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar, sem er 52 milljónir króna. Þrír aðrir verktakar buðu í verkið. Þjótandi á Hellu bauð 56 milljónir, Mjölnir á Selfossi 59,6 milljónir og Borgarverk ehf. 64,3 milljónir króna.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í byrjun sumars og að verkinu verði að fullu lokið í ágúst á þessu ári.
Þessi grein birtist í 3. tbl. Framkvæmdafrétta 2022. Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.