27. maí 2024
Þing­skála­vegur byggður upp

Þingskálavegur (268) verður endurbyggður á 7,5 km kafla í sumar. Vegurinn verður að stærstum hluta í sömu veglínu og áður en færist til á um 300 m kafla við bæinn Heiði, þar sem lagt verður nýtt ræsi í Heiðarlæk.

„Verktakinn hófst handa í lok mars og verkið hefur gengið ágætlega,“ segir Héðinn Hauksson á umsjónardeild Suðursvæðis Vegagerðarinnar. Verktaki er Þjótandi á Hellu sem bauð 260 m.kr. í verkið og var lægstbjóðandi í útboði Vegagerðarinnar sem opnað var í janúar.

Verkið snýst um endurbyggingu á Þingskálavegi á 7,5 km kafla frá slitlagsenda við bæinn Heiði á Rangárvöllum og að slitlagsenda við Örlygsstaðamela í Rangárþingi ytra. Skipta þarf út nokkrum ræsum og ristarhliðum en í verkinu felst einnig endurmótun nokkurra tenginga að aðliggjandi minni vegum.

Núverandi vegur verður breikkaður nokkuð. Hann var áður 5 til 6 m breiður malarvegur en verður eftir framkvæmdir 6,5 m breiður, uppbyggður vegur, með 6,3 m breiðu bundnu slitlagi. Lagt verður nýtt burðarlag, styrktarlag og klæðing auk þess sem vegfláar verða lagaðir til að auka umferðaröryggi.

Ræsi við Heiðarlæk.

Ræsi við Heiðarlæk.

Kort af framkvæmdasvæðinu.

Kort af framkvæmdasvæðinu.

Þingskálavegur er að hluta til malavegur sem að sögn Héðins var orðinn efnisrýr og erfitt að viðhalda. Slitlag er beggja megin við framkvæmdakaflann og því verið að tengja saman þessa tvo slitlagskafla. „Umferð um veginn er alltaf að aukast þar sem ferðaþjónusta hefur verið að byggjast upp og svo fer sumarhúsabyggðin líka vaxandi,“ segir Héðinn. Sumardagsumferð (meðalumferð á dag fyrir sumarmánuðina) er um 160 bílar en um veginn aka íbúar, sumarbústaðagestir en einnig töluvert af ferðamönnum, bæði á eigin bíl og hópferðabílum. Vetrardagsumferð er hins vegar lítil, aðeins um 70 bílar. Þungaumferð er lítil en hins vegar ekur skólabíll þessa leið.

Eins og áður sagði hófust framkvæmdir í mars. Fyrstu vikurnar fóru í undirbúning og mælingar en í apríl hófst efnisvinnsla í námu við Þingskálagryfju. Þá var byrjað að aka með fyllingarefni í veginn til að byggja hann upp. Einnig hafa ræsi verið flutt á rétta staði þar sem þau bíða þess að verða skipt út fyrir eldri ræsi.

Vegurinn verður að mestu byggður upp í gömlu veglínunni en stærsta breytingin verður við bæinn Heiði þar sem færa þarf veglínuna á um 300 m kafla um Heiðarlæk. „Í Heiðarlæk er steypt ræsi sem þarf að brjóta niður en í þess stað verður sett nýtt og breiðara ræsi. Einnig verður útbúin stífla fyrir uppistöðulón að ósk landeiganda,“ segir Héðinn og bætir við að þessi breyting á veginum muni auka umferðaröryggi til muna en áður var kröpp beygja á veginum og sjónlengdir takmarkaðar.

Nokkrar fornminjar eru á framkvæmdasvæðinu, til dæmis tóft af hesthúsi og önnur heimild um hesthús. Þessir staðir verða girtir af í upphafi framkvæmda í samráði við Minjastofnun.

Stefnt er að því að verkinu verði að fullu lokið 15. september á þessu ári.

Helstu magntölur eru:

  • Skeringar 5.500 m3
  • Bergskeringar í námu 18.500 m3
  • Fyllingar 25.000 m3
  • Styrktarlag 0/63 10.400 m3
  • Burðarlag 0/22 8.200 m3
  • Tvöföld klæðing 47.900 m2
  • Frágangur fláa 62.900 m2

Þessi grein birtist fyrst í   Framkvæmdafréttum 2. tbl. 2024, nr. 730. Áskrift að Framkvæmdafréttum er frí og hægt að gerast áskrifandi með því að senda póst á askrift@vegagerdin.is

Efnistaka er í námu við Þingskálagryfju

Efnistaka er í námu við Þingskálagryfju

Gert verður uppistöðulón í Heiðarlæk að ósk landeiganda

Gert verður uppistöðulón í Heiðarlæk að ósk landeiganda