Vegagerðin og Reykjavíkurborg héldu þrjá kynningarfundi í októberbyrjun um matsáætlun vegna umhverfisáhrifa Sundabrautar og fyrirhugaðar aðalskipulagsbreytingar. Einnig var haldinn morgunfundur í beinu streymi í húsakynnum Vegagerðarinnar. Fundirnir voru upplýsandi og vel sóttir. Í vikunni verða kynningafundir um Sundabraut á Akranesi og í Mosfellsbæ.
Vegagerðin, í samvinnu við Reykjavík, vinnur að undirbúningi Sundabrautar frá Sæbraut að Kjalarnesi. Markmið framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta, dreifa umferð og bæta tengingar við og innan höfuðborgarsvæðisins, stytta akstursleiðir og ferðatíma og minnka þannig útblástur og mengun. Til skoðunar eru valkostir á legu Sundabrautar, auk tenginga við byggð og atvinnustarfsemi.
Áætlaður framkvæmdatími er á árunum 2026-2031. Framkvæmdin verður boðin út sem samvinnuverkefni.
Kynningarfundirnir þrír voru haldnir í Klébergsskóla, Langholtsskóla og Rimaskóla, auk morgunfundarins hjá Vegagerðinni. Þá verða haldnir tveir kynningarfundir á Akranesi og í Mosfellsbæ í þessari viku.
Miðvikudaginn 11. október klukkan 19:30 verður haldinn kynningarfundur í samstarfi við Akranesbæ og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi. Fundurinn verður haldinn í Tónbergi, tónleikasal Tónlistarskólans á Akranesi.
Fimmtudaginn 12. október kl. 18:00-19:15 verður haldinn kynningarfundur í samstarfi við Mosfellsbæ, fyrir íbúa og hagaðila í Mosfellsbæ. Fundurinn verður haldinn í sal Framhaldsskólans í Mosfellsbæ, Bjarkarholti 35.
Frekari upplýsingar um Sundabrautarverkefnið er að finna á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar en opið er fyrir umsagnir og athugasemdir til 19. október 2023. Sjá hér: