Göngu- og hjólastíganet höfuðborgarsvæðisins stækkar um 3,3 kílómetra á árinu. Innifalið í því er brú við Grænugróf. Katrín Halldórsdóttir, verkfræðingur hjá Vegagerðinni, segir undirbúning ganga vel og er bjartsýn á að framkvæmdir hefjist með vorinu.
„Þegar er búið að leggja 9 km af nýjum stígum frá því að uppbygging göngu- og hjólastíganetsins á höfuðborgarsvæðinu hófst, eða 20% af fyrirhuguðum framkvæmdum. Stígakerfið auðveldar fólki að komast leiðar sinnar fótagangandi eða á hjóli, auk þess að tengja vel saman hverfi og sveitarfélög,“ segir Katrín, sem hefur umsjón með verkefninu fyrir hönd Vegagerðarinnar. Um er að ræða stofnnet göngu- og hjólastíga sem heyra undir Samgöngusáttmálann og Vegagerðin heldur utan um í samstarfi við sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.
„Almennt er fólk mjög jákvætt fyrir uppbyggingu stígakerfisins og kallað er eftir hraðari uppbyggingu þess,“ upplýsir Katrín og bætir við að aðskilnaður stíganna auki öryggi vegfarenda.
„Í Reykjavík verður áfram unnið að því að leggja aðskilda göngu- og hjólastíga í Elliðaárdal, eða frá Grænugróf að Breiðholtsbraut. Við Grænugróf verður byggð ný brú yfir Elliðaárnar sem mun tengjast inn á stígakerfið. Þá er fyrirhugað að byggja nýja göngu- og hjólabrú yfir Dimmu, sem er hluti Elliðaánna. Brúin yfir Dimmu er hluti af uppbyggingu nýs Arnarnesvegar og mun tengjast göngu- og hjólastígum sem eru partur af þeim framkvæmdum,“ segir Katrín.
Vestan Kringlumýrarbrautar, frá brúnni yfir Bústaðaveg að Suðurhlíð í Fossvogi, verða lagðir aðskildir göngu- og hjólastígar, sem Katrín telur að verði mikil samgöngubót. „Því til viðbótar verða lagðir aðskildir göngu- og hjólastígar frá undirgöngum við Litluhlíð að Miklubraut,“ greinir Katrín frá.
Í Kópavogi er fyrirhugað að leggja nýja hjólastíga eftir Ásbraut og Hábraut að Hamraborg. „Samhliða því verða lagðir aðskildir göngu- og hjólastígar vestan Hafnarfjarðarvegar suður með Kársneshálsi, frá Borgarholtsbraut að Kópavoginum. Við þetta má bæta að vinna við hönnun á aðskildum stígum við Kópavoginn, vestan Hafnarfjarðar að sveitarfélagsmörkum Garðabæjar, stendur yfir og framkvæmdir við þá stíga hefjast annað hvort á þessu ári eða því næsta,“ segir Katrín.
Einnig er unnið að hönnun á göngu- og hjólastígum í Garðabæ og Hafnarfirði. Verkefnin eru mislangt komin en áætlað að framkvæmdir hefjist á næstu misserum.
„Hönnun á stígum í Garðabæ stendur yfir. Verið er að hanna stíga norðan Arnarneshæðar, eða vestan Hafnarfjarðarvegar frá sveitarfélagsmörkum við Garðabæ að nýju undirgöngunum við Arnarnesveg. Sama á við um sunnanverða Arnarneshæð að Vífilstaðavegi og við Ásahverfi að Engidal. Þar verða aðskildir göngu- og hjólastígar vestan Hafnarfjarðarvegar, frá göngubrú yfir Hafnarfjarðarveg við Breiðás yfir í Engidal að sveitarfélagsmörkum við Hafnarfjörð,“ segir Katrín.
Í Norðurbænum í Hafnarfirði eru aðskildir göngu- og hjólastígar í hönnun, vestan Reykjavíkur sem ná frá Suðurvangi að sveitarfélagsmörkum við Garðabæ, að sögn Katrínar.
Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 1. tbl. 2024, nr. 729. Áskrift að Framkvæmdafréttum er frí og hægt að gerast áskrifandi með því að senda póst á askrift@vegagerdin.is