Arndís Ósk Ólafsdóttir Arnalds, framkvæmdastjóri mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar, og Atli Þór Jóhannsson, framkvæmdastjóri Borgarverks, skrifuðu undir verksamning í dag, þriðjudaginn 4. mars, vegna verksins; Vestfjarðavegur (60) um Dynjandisheiði, 3. áfangi.
Arndís Ósk Ólafsdóttir Arnalds, framkvæmdastjóri mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar , og Atli Þór Jóhannsson, framkvæmdastjóri Borgarverks, skrifuðu undir verksamning vegna þriðja áfanga Dynjandisheiðar.
Verkið felst í nýbyggingu Vestfjarðarvegar á um 7,2 km kafla, ásamt um 0,8 km kafla á Dynjandavegi. Vegurinn verður að mestu leyti byggður í nýju vegstæði en að hluta til í núverandi vegstæði. Inn í verkinu er einnig gerð keðjunarplans og gerð áningarstaðs.
Verktaki mun hefjast handa innan skamms en Borgarverk sinnir þegar tveimur öðrum framkvæmdaverkum á svipuðum slóðum, annars vegar fyllingum vegna þverunar Gufufjarðar og Djúpafjarðar og hins vegar verkefni við varnargarða nærri Flateyri.
Verkinu skal að fullu lokið 30. september 2026.
Í 1. áfanga verksins var byggður upp 7,7 km kafli við Þverdalsá og einnig um 4,3 km kafli fyrir Meðalnes. Þær framkvæmdir stóðu yfir frá 2020-2022. Þá bættist einnig við um 650 m kafli á Bíldudalsvegi. Auk þess var um 1 km kafli frá Pennu niður að Flókalundi lagfærður.
Í 2. áfanga verksins fólst nýbygging Vestfjarðavegar á um 12,6 km löngum kafla. Sú framkvæmd náði frá Norðdalsá, norðan Bíldudalsgatnamóta, og lá um hæsta hluta Dynjandisheiðar og norður fyrir sýslumörk. Vegurinn var að mestu leyti byggður í nýju vegstæði en að hluta til í gamla vegstæðinu. Inni í því verki var einnig gerð námuvegar að námu í Trölladal og gerð áningarstaðar. Verklok 2. áfanga voru árið 2024.
Tölvugerð mynd af fyrirhuguðum framkvæmdum.
Tölvugerð mynd af fyrirhuguðum framkvæmdum.
Dynjandisheiði í september 2024. Mynd/Haukur Sigurðsson
Dynjandisheiði í september 2024, á mótum 2. og 3. áfanga. Mynd/Haukur Sigurðsson