Fulltrúar Vegagerðarinnar og ÞG Verks skrifuðu í dag undir samning um smíði brúar yfir Jökulsá á Sólheimasandi. Verkið Hringvegur (1) um Jökulsá á Sólheimasandi var boðið út í lok september á þessu ári og tilboð opnuð í lok október.
Verkið felst í byggingu brúar á Jökulsá á Sólheimasandi ásamt endurgerð vegakafla Hringvegar beggja vegna og gerð bráðabirgðavegar. Hæðarlega vegkaflanna er breytt frá því sem nú er, meðal annars til að vegurinn rofni áður en flæðir yfir brúnna. Brúin verður rúmlega 163 metra löng tvíbreið steinsteypt, eftirspennt bitabrú.
ÞG Verk átti lægsta tilboðið í verkið upp á tæpar 735 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að verktaki geti hafið framkvæmdir strax. Brúarflokkur Vegagerðarinnar er nú þegar við störf og vinnur að byggingu bráðabirgðabrúar sem verður í notkun meðan á framkvæmdum stendur.