Vesturlandsvegur (1) í gegnum Mosfellsbæ var vígður formlega fimmtudaginn 8. desember eftir endurbætur og breikkun. Með framkvæmdinni stóreykst umferðaröryggi í gegnum bæinn.
Vígðir voru tveir áfangar, tæpir 2 kílómetrar frá Skarhólabraut að Reykjavegi, en framkvæmdirnar eru hluti af verkefnum Samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem gerður var í september 2019.
Verkið gekk mjög vel. Framkvæmdir við fyrsta áfanga hófust í lok maí 2020 og lauk í desember það sama ár. Seinni áfangi fór af stað í febrúar á þessu ári og lauk formlega við opnunina þann 8. desember.
Í fyrri áfanga, sem náði frá Skarhólabraut að Langatanga, var akreinum fjölgað úr þremur í fjórar og þannig komið í veg fyrir umferðarteppur sem oft mynduðust við Lágafellskirkju. Í seinni áfanganum, sem náði frá Langatanga að Reykjavegi, voru fjórar akreinar fyrir en þörf á endurbyggingu vegarins. Stærsta breytingin er sú að akstursstefnur eru nú aðskildar með vegriði á allri leiðinni sem stóreykur umferðaröryggi á veginum.
Verktaki í báðum áföngum var Loftorka Reykjavík ehf.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, og Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, klipptu á borða á nýrri afrein að Krikahverfi og mörkuðu þannig formlega opnun vegarins.
Við það tækifæri sagði Sigurður Ingi meðal annars: „Með Samgöngusáttmálanum, sem að standa ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, var blásið til stórsóknar í samgöngumálum á svæðinu. Það er mjög ánægjulegt að sjá uppskeru hans líta dagsins ljós sem eykur umferðaröryggi og afköst vegarins.”
Bergþóru Þorkelsdóttur var þakklætið efst í huga: „Ég er þakklát fyrir hvert skref sem við stígum í átt að auknu umferðaröryggi. Það er afar ánægjulegt að sjá verkefni Samgöngusáttmálans verða að veruleika og færast þannig nær markmiðum hans um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu og aukið umferðaröryggi. Við erum líka einstaklega ánægð með samstarfið við verktakann Loftorku sem hefur með góðu skipulagi tekist að halda flæði umferðarinnar gangandi í kringum framkvæmdasvæðið sem er ekki auðvelt verk þegar um veginn aka milli tuttugu og þrjátíu þúsund bílar á sólarhring.“
„Það er ánægjulegt að þremur stofnvegaverkefnum Samgöngusáttmálans sé nú að fullu lokið. Þessi nýi og betri kafli Vesturlandsvegar bætir öryggi allra vegfarenda til muna,“ sagði Davíð Þorláksson við þetta tækifæri.
Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar var einnig ánægð: „Við erum hæstánægð með þessa framkvæmd þar sem hún bætir umferðarflæðið auk þess sem lýsing og vegrið auka öryggi til muna. Hljóðvarnir hafa líka verið bættar og við fengum biðstöðvar Strætó beggja vegna vegarins við Hlíðartúnshverfi og Skálahlíð sem er mikill kostur.“