Vegagerðin á 105 vita um allt land. Þar af eru 30 sem aðeins er hægt að komast að frá sjó eða lofti. Árlega fara starfsmenn Vegagerðarinnar í ferð kringum landið með varðskipi Landhelgisgæslunnar og sinna viðhaldi þessara afskekktu vita. Guðmundur Jón Björgvinsson, rafvirkjameistari á tækjabúnaðardeild Vegagerðarinnar fór í ferðina í ár með tveimur samstarfsfélögum sínum.
Ferðin okkar hófst að venju í Reykjavík, en í ár var farið rangsælis í kringum landið. „Við byrjuðum á því að sinna ljósduflum á Faxaflóa, skiptum um rafhlöður, prófuðum merkjagjafa og könnuðum ástand legufæra. Okkur til aðstoðar var vélsmiður sem sá um að mæla og ákveða hvaða keðjur þyrfti að skipta um,“ segir Guðmundur Jón, en ásamt honum voru þeir Ástþór Ingi Ólafsson rafvirki, og Jóhann Geir Hjartarson af mannvirkjasviði með í ferðinni. Jóhann hafði það hlutverk að gera úttekt á ytra byrði og burðarvirki vitanna.
Ferðin var farin með varðskipinu Þór, tuttugu manna áhöfn Landhelgisgæslunnar með skipherrann Pál Geirdal við stjórnvölinn.
Eftir Faxaflóa var haldið til Vestmannaeyja til að yfirfara búnað í vitanum í Faxaskeri. Síðan var haldið áfram samkvæmt áætlun austur fyrir land og viðhaldi sinnt í nokkrum vitum á leiðinni. „Fátt markvert gerðist fyrr en við vorum komnir að Melrakkanesi en þar var búið að ákveða að hitta á þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar sem var þar við gæslustörf. Planið var að nota þyrluna til að flytja rafgeyma út að vitanum. Við þurftum nefnilega að koma tíu 23 kílóa rafgeymum í land og taka þaðan tólf 30 kílóa rafgeyma og flytja aftur út í skip,“ segir Guðmundur en ferðin hafði verið skipulögð með það í huga að varðskip og þyrla væru á sama tíma á þessum stað.
„Við vorum búnir að undirbúa komu þyrlunnar mjög vel og allt gekk eins og smurð vél, bæði að hífa nýju rafgeymana úr skipinu og að taka gömlu geymana aftur til baka. Veðrið hjá okkur á Melrakkanesi var með eindæmum gott þennan dag, og áhöfninni á þyrlunni þótti verst að þurfa að kveðja okkur og snúa aftur í súldina í höfuðstaðnum,“ segir Guðmundur glettinn.
Þegar skipt hafði verið um geymana var stefnan sett á Eyjafjörð þar sem átti að stoppa í Dalvík á sjómannadaginn, en hvíldin var skammvinn. Fyrir hádegi á sjómannadaginn kom hjálparbeiðni frá Reyðarfirði þar sem stórt flutningaskip var vélarvana á miðjum firðinum. Fram að þessu hafði verið einmuna blíða alla ferðina, logn og sól í heiði en nú spáði illviðri. Því þurfi að hafa hraðar hendur að sigla til Reyðarfjarðar til að koma skipinu að bryggju áður en veður versnaði. Við tók tólf tíma sigling til Reyðarfjarðar og vel gekk að koma skipinu í höfn. „Við sigldum síðan aftur til Eyjafjarðar en nú í skítabrælu og ekki allir sem áttu góðar stundir enda sóttist ferðin heldur hægt.“
Ferðin hélt áfram. Skoðuð var bauja við Hörgágrunn og farið í Siglunesvita. „Þarna var hins vegar komin bræla og því urðum við að sleppa Málmey vegna brims í lendingunni, og það átti líka við um Seleyjarvita og Hornbjargsvita.“
Okkur tókst að komast að vitanum á Straumnesi undir miðnætti. Eftir það var haldið inn í Ísafjarðardjúp í nokkur verkefni og að því loknu var farið í Arnarfjörð þar sem unnið var í nokkrum vitum réttsælis í átt að Galtarvita. Guðmundur segir óvissu hafa verið um hvort hægt yrði að fara í vitann. „Nýr dróni sem áhöfnin á Þór bjó yfir sannaði gildi sitt. Því með honum gátum við kannað aðstæður til lendingar undir vitanum.“
Kópanesviti var næstur á dagskrá og svo var siglt á Breiðafjörð. „Þar fundum við tvo bilaða skerjavita í Miðleiðarskeri og Skarfakletti. Merkjagjafarnir á báðum stöðum voru fjarlægðir og teknir með um borð í varðskipið þar sem tókst að gera við þá báða til bráðabirgða.“
Vélsmiðurinn góði kom síðan aftur um borð til að aðstoða við eftirlit á legufærum duflanna á Breiðafirði.
Síðasti vitinn í ferðinni var Þormóðsskersviti út af Mýrunum í Borgarfirði. „Þar skiptum við um rafgeyma. Nú fóru tíu í land en átján til baka. Allt var þetta borið til okkar og í burtu af frískum sveinum Gæslunnar og eiga þeir miklar þakkir fyrir,“ segir Guðmundur ánægður.
Veðrið var nú aftur orðið gott og þeir félagar nutu veðurblíðunnar á Þormóðsskeri. Vanalega er lítið um gestagang í þessum ferðum enda fáir sem komast í afskekktustu vita landsins. En nú birtist þyrla Landhelgisgæslunnar óvænt með hershöfðingja og sendinefnd frá NATO. „Við buðum sendinefndina að sjálfsögðu velkomna í vitann og höfðum gaman að þessum óvænta vinkli á síðasta degi ferðarinnar,“ lýsir Guðmundur glaðlega.
Guðmundur er mjög þakklátur fyrir alla aðstoð áhafnarinnar á Þór. „Alla leiðina í kringum landið sinnti áhöfnin líka ótal verkefnum tengdum sínu hlutverki sem löggæsluaðili á hafinu ásamt því að koma tveimur skipum til bjargar. Aðstoðin við okkur í þessum vitaferðum er því hálfgert hliðarverkefni við gæslu, eftirlit og björgun.“
Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 4. tbl. 2024 nr. 732. Áskrift að Framkvæmdafréttum er frí og hægt að gerast áskrifandi með því að senda póst á askrift@vegagerdin.is