Vegagerðin hefur samið við flugfélagið Erni um flug til Vestmannaeyja. Flognar verða fjórar ferðir í viku á tímabilinu 15. desember til 28. febrúar og verður fyrsta flugið næstkomandi sunnudag. Flogið verður þrjá daga í viku á milli Eyja og Reykjavíkur. Tvær ferðir á þriðjudögum og ein á miðvikudögum og sunnudögum.
Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu flugfélagsins www.ernir.is en búið er að opna fyrir farmiðasölu á bókunarvef félagsins. Flogið verður í Jetstream 32 og Dornier 328 flugvélum.
Nýverið var jafnframt samið við Erni um að fljúga fjórar ferðir í viku til Húsavíkur á tímabilinu 1. desember til 28. febrúar.
Flugleiðir þessar eru styrktar til að tryggja tímabundið lágmarksþjónustu á flugleiðunum á meðan markaðslegar forsendur eru ekki til staðar, enda flugið mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf á svæðunum.