14. nóvember 2022
Reykja­nesbraut lokað vegna malbiks­fram­kvæmda

Lokað fyrir umferð frá Grindavíkurvegi í átt að Reykjavík. Hjáleið um Krýsuvíkurveg. Opið fyrir umferð í átt að flugstöðinni.

 

Vegna malbikunarframkvæmda verður Reykjanesbraut lokuð fyrir umferð frá Grindavíkurvegi í átt að Reykjavík, að álverinu í Straumsvík, frá klukkan 20:00 miðvikudaginn 16. nóvember og til klukkan 20:00 fimmtudaginn 17. nóvember. Til stendur að malbika Reykjanesbraut á um 2,7 km kafla við álverið í Straumsvík.

Reykjanesbrautin verður opin fyrir umferð til Suðurnesja og á flugvöllinn allan framkvæmdatímann. Vegurinn verður lokaður við Grindavíkurveg, fyrir umferð í átt til Reykjavíkur en opið verður fyrir íbúa og þá sem eiga erindi í Voga og á Vatnsleysuströnd.

Hjáleið verður um Grindavíkurveg (43), Suðurstrandarveg (427) og Krýsuvíkurveg (42) fyrir þá sem eru á leið til höfuðborgarinnar. Sú leið er lengri og því þurfa ökumenn að gera ráð fyrir lengri ferðatíma. Einnig er bent á að umferðartafir gætu orðið nokkrar og ökumenn beðnir um að aka varlega og sýna tillitssemi.

Hraði á Krýsuvíkurvegi verður tekinn niður í 50 km/klst. á nokkrum stöðum auk þess sem hugað verður að aukinni vetrarþjónustu á veginum ef á þarf að halda.

Til stóð að malbika þennan kafla Reykjanesbrautarinnar sumarið 2023 en hjólför hafa myndast hraðar en ráð var fyrir gert og því talið nauðsynlegt að ráðast í þessar framkvæmdir fyrir veturinn til að gæta fyllsta öryggis vegfarenda. Dagsetning framkvæmdanna nú er valin vegna hagstæða veðurskilyrða í vikunni.

Björgunarsveitarfólk og starfsfólk Vegagerðarinnar verður við lokunarstöðvar og helstu gatnamót. Þetta er gert til að auka öryggi og til að bregðast við ef hleypa þarf í gegn viðbragðsaðilum í forgangsakstri. Lokun Reykjanesbrautarinnar eru unnin í góðri samvinnu við helstu hagaðila.

Kort sem sýnir hjáleið vegna lokunar Reykjanesbrautar. Opið verður fyrir umferð til Suðurnesja og flugvallarins allan framkvæmdatímann.

Kort sem sýnir hjáleið vegna lokunar Reykjanesbrautar. Opið verður fyrir umferð til Suðurnesja og flugvallarins allan framkvæmdatímann.