Landmótun fornra ísstrauma á Norðausturlandi er yfirskrift samantektarskýrslu rannsókna 2019-2021 eftir Ívar Örn Benediktsson við Háskóla Íslands. Verkefnið var styrkt af rannsóknasjóði Vegagerðarinnar.
Tilgangur verkefnisins er að auka skilning á umfangi, landmótun og virkni fornra ísstrauma á Norðausturlandi, og sögu afjöklunar undir lok síðasta jökulskeiðs. Það er gert með því að kortleggja og rannsaka jökulræn setlög og landform upp af Vopnafirði, Bakkaflóa, Þistilfirði og á Jökuldalsheiði með margvíslegum jarð- og jarðeðlisfræðilegum aðferðum. Rannsóknaspurningarnar eru eftirfarandi:
1) Hvað einkennir landmótun svæðisins og dreifingu setlaga og landforma, og hvernig tengist hún legu, virkni og hörfun fornra ísstrauma?
Þessum spurningum er svarað með ítarlegri kortlagningu setlaga og landforma til að skýra landmótun svæðisins, legu fornra ísstrauma og afstæðan aldur þeirra.
2) Hvað einkennir setgerð og byggingu þeirra landforma sem ísstraumar hafa myndað?
Hér er setfræðilegum og jarðeðlisfræðilegum aðferðum beitt til að varpa ljósi á setgerð og byggingu landforma og þau ferli sem stuðla að auknum skriðhraða og mótun lands undir hraðskreiðum jöklum.
Í skýrslunni er gerð grein fyrir framvindu og helstu niðurstöðum verkefnisins frá 2019 til 2021. Verkefnið hófst upphaflega sumarið 2016 eftir uppgötvun þyrpingu jökulalda á heiðum ofan Vopnafjarðar á hinu nýja ArcticDEM hæðarlíkani. Við frekari athuganir á landmótun á svæðinu frá Þistilfirði, til Bakkaflóa og Vopnafjarðar, og allt suður á Jökuldalsheiði kom í ljós mynstur straumlínulaga landforma sem talið var endurspegla flæði hraðskreiðra ísstrauma á síðasta jökulskeiði. Verkefnið aflar mikilvægra upplýsinga um landmótun og jarðgrunn svæðisins, dreifingu setlaga og landforma sem mörg hver hafa hagnýtt gildi fyrir ýmis konar framkvæmdir og mannvirkjagerð, sem og náttúruvernd. Þá öðlast framhaldsnemar þjálfun og reynslu í verkefninu, en í því hafa einn doktorsnemi og fimm meistaranemar unnið við afmörkuð rannsóknarefni.
Helstu niðurstöður verkefnisins fram að þessu eru að lega straumlínulaga jökullandforma, s.s. jökulalda og risakembna, bendir til að þegar ísaldarjökullinn var hvað þykkastur, líklega við hámark síðasta jökulskeiðs fyrir um 20 þúsund árum, var flæði ísstrauma á rannsóknarsvæðinu einkum til norðurs. Skeytti jökullinn þá engu um það landslag sem undir lá og skreið t.a.m. þvert yfir Vopnafjarðardali. Þegar jökullinn tók að þynnast á síðjökultíma fór landslag að stýra flæði hans æ meira svo að ísstraumar lágu um Vopnafjörð, Bakkaflóa og Þistilfjörð út á landgrunnið. Hefur þessu verið nánar lýst í nýútkominni vísindagrein. Landformin sem þessir ísstraumar skildu eftir sig eru ýmist gerð úr fremur einsleitri en grófri botnurð eða úr blöndu af botnurð og jökulárseti. Gerð er grein fyrir setgerð og byggingu landforma í lokaritgerðum framhaldsnema og óútkomnum vísindagreinum.
Myndatexti við mynd tvö hér til hliðar: Rannsóknarsvæðið á Norðausturlandi. Gulir krossar tákna þau svæði sem sérstaklega var unnið á sumrin 2019-2021. Rauðir flákar og rauðgular línar tákna straumlínulaga landform, sem aftur endurspegla flæði fornra ísstrauma. Ljósbrúnir flákar tákna svæði með rifjagörðum, grænir flákar eru þar sem þvergarða má finna, og fjólublár fláki sýnir svæði með sprungufyllingum.
Þessi grein birtist í 1. tbl. Framkvæmdafrétta 2022. Rafræna útgáfu má finna hér. Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.