15. apríl 2024
Ráðstefn­an Via Nordica 2024 hald­in í Kaup­manna­höfn 11.-12. júní

Samgönguráðstefnan Via Nordica 2024 verður haldin 11. og 12. júní næstkomandi í Kaupmannahöfn. Norræna vegasambandið, Nordisk Vejforum, stendur fyrir ráðstefnunni sem haldin er fjórða hvert ár. Yfirskriftin að þessu sinni er Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna –  Aðkoma samgöngugeirans á Norðurlöndum. Vegagerðin er aðili að Nordisk Vejforum.

Via Nordica ráðstefnan hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem faglegur vettvangur innan samgöngugeirans á Norðurlöndunum, sem og á alþjóðlega vísu. Á ráðstefnunni í ár verður sérstök áhersla lögð á nýjar tæknilausnir sem varða samgöngumál og hvernig þær geta stuðlað að bættu samfélagi og verndun jarðarinnar.

Boðið verður upp á einkar fjölbreytta dagskrá, svo sem fyrirlestra, málstofur, sýningu og vettvangsferðir.

Á meðal umfjöllunarefna verða umhverfismál, umferðaröryggi, Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins, sjálfbær brúarhönnun, sjálfkeyrandi bílar og veghönnun, slys og hvaða lærdóm er hægt að draga af þeim, vetrarþjónusta á vegum og stígum og norrænn verktakamarkaður. Ráðstefnan fer fram á ensku.

Via Nordica verður haldin á Tivoli Hotel & Congress Center sem er hjarta Kaupmannahafnar. Allir helstu staðir borgarinnar eru í göngufæri og stutt er í almenningssamgöngur.

Ráðstefnan Via Nordica var haldin á Íslandi árið 2012 í Hörpu og mættu þá ríflega 800 manns.

Ráðstefnan er opin öllu fagfólki í samgöngumálum, hvort sem er í opinbera eða einkageiranum.

Nánari upplýsingar má finna hér: https://vianordica2024.dk/

Skráning fer fram á www.vianordica2024.dk

Via Nordica 2024

Via Nordica 2024