Umferðin í janúar 2023 reyndist sú mesta sem mælst hefur í janúarmánuði. Umferðin jókst töluvert mikið eða um 12,6 prósent miðað við janúar 2022. Fyrra met var sett í janúar 2019 en núna var umferðin ríflega tveimur prósentum meiri en þá. Líklegt verður að telja að mikil vetrarferðamennska skýri aukninguna að einhverju leyti því veðrið var ekki alltaf upp á sitt besta í nýliðnum janúar.
Milli mánaða 2023 og 2022
Fyrir lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi þennan fyrsta mánuð ársins, reyndist umferðin sem sé sú mesta sem mælst hefur frá upphafi mælinga í janúar. Eða 12,6% meiri en á síðasta ári og 2,1% meiri en fyrra metið.
Mest jókst umferðin um mælisnið á Suðurlandi eða um 18,2% en minnst á Austurlandi eða um 2,3%.
Af einstaka mælisniðum jókst umferðin mest yfir mælisnið á Mýrdalssandi eða um 43,1%. Minnst jókst umferð um mælisnið á Fagradal eða um 0,1%.
Umferð eftir vikudögum
Umferðin reyndist hafa aukist talsvert alla vikudaga nema á mánudögum, en þar varð lítilsháttar samdráttur.
Mest var ekið á fimmtudögum í nýliðnum janúar, en jafnan og yfirleitt er mest ekið á föstudögum. Minnst var ekið á mánudögum.