Umferðin á höfuðborgarsvæðinu jókst um rétt 0,2 prósent í nýliðnum marsmánuði miðað við sama mánuð fyrir ári síðan. Samdráttur hefur verið í umferðinni frá áramótum sem nemur tæpum fjórum prósentum miðað við janúar til mars í fyrra.
Milli mánaða 2021 og 2022
Umferðin á höfuðborgarsvæðinu jókst lítillega í nýliðnum mars miðað við sama mánuð á síðasta ári eða um 0,2%. Ástæða þess að aukning mældist er sú að umferðin yfir mælisnið á Hafnarfjarðarvegi jókst um 3,2% en hin tvö á Reykjanesbraut og Vesturlandsvegi, sýndu samdrátt.
Þrátt fyrir þessa litlu aukningu, var umferðin í nýliðnum mars sú næst mesta, sem mælst hefur frá upphafi, en í mars árið 2019 reyndist tæplega 1% meiri umferð í mars.
Frá áramótum
Nú mælist tæplega 4% samdráttur í umferð um mælisniðin þrjú sé tímabilið janúar til mars borið saman við sama tímabil á síðasta ári.
Umferð eftir vikudögum
Umferðin dróst saman í þremur fyrstu vikudögum, mars mánaðar, eða frá mánudegi til miðvikudags en jókst í seinni hluta vikunnar frá fimmtudegi til sunnudags.
Hlutfallslega jókst umferð mest á sunnudögum eða um rúmlega 3% en mest dróst umferð saman á mánudögum eða um tæp 3%.
Á virkum dögum var mest ekið á föstudögum en minnst á mánudögum.