Opnað verður fyrir umferð um Breiðholtsbraut, yfir ný undirgöng til móts við Völvufell, á morgun laugardaginn 25. janúar. Umferðinni hefur verið beint um hjáleið frá því framkvæmdir við undirgöngin hófust í apríl 2024.
Opnað verður fyrir umferð um Breiðholtsbraut, yfir ný undirgöng til móts við Völvufell, á morgun laugardaginn 25. janúar. Á myndinni sést hvar hjáleiðin hefur verið. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Unnið er að breikkun Breiðholtsbrautar í tengslum við verkið Arnarnesvegur (411), Rjúpnavegur – Breiðholtsbraut. Af þeim sökum þurfti að byggja ný og breiðari undirgöng en gömlu undirgöngin voru lögð af og ný byggð aðeins austar en þau eldri.
Nýju undirgöngin verða þó ekki tilbúin fyrr en í vor þar sem ýmiss frágangur er eftir.
Framkvæmdir við Arnarnesveg hófust í byrjun september 2023. Auk 3. áfanga Arnarnesvegar er einnig innifalið í verkinu breikkun Breiðholtsbrautar frá Jaðarseli að Elliðaám, lagning stofnlagnar hitaveitu Suðuræðar II meðfram Breiðholtsbraut frá Völvufelli að Elliðaám, gerð göngu- og hjólastíga og bygging nýrrar göngu- og hjólabrúar yfir Elliðaár við Dimmu.
Áætluð verklok eru haustið 2026.
Framkvæmdirnar heyra undir Samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en í honum felst m.a. metnaðarfull uppbygging á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2040.