Miðvikudaginn 17. janúar verður opið hús frá kl. 16 – 19 í Leikskálum vegna umhverfismats á færslu Hringvegar um Mýrdal. Á staðnum verða fulltrúar frá Vegagerðinni og VSÓ Ráðgjöf sem munu veita upplýsingar um framkvæmdina, umhverfisáhrif, valkosti og svara fyrirspurnum.
Undanfarin ár hefur umferð um núverandi Hringveg í Mýrdal aukist umtalsvert auk þess sem þéttbýlið í Vík hefur stækkað með tilheyrandi umferð óvarinna vegfarenda yfir og við veginn. Í samræmi við lögbundið hlutverk Vegagerðarinnar er þörf á að stuðla að auknu umferðaröryggi og greiðfærni allrar umferðar og vöruflutninga um Hringveginn. Í umhverfismatsskýrslu eru sex valkostir til skoðunar, auk núllkosts, og fela þrír valkostir í sér jarðgöng og þrír fela í sér endurbætur á núverandi Hringvegi að einhverjum hluta. Í umhverfismatsskýrslu eru valkostir bornir saman með tilliti til umhverfisáhrifa og markmiða framkvæmdar.
Skipulagsstofnun hefur auglýst umhverfismatsskýrslu um færslu Hringvegar um Mýrdal til kynningar og hafa allir rétt til að leggja fram athugasemdir við umhverfismatið. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 29. janúar 2024 inn á Skipulagsgátt þar sem jafnframt má finna umhverfismatsskýrslu framkvæmdar ásamt fylgigögnum.