Hafnadeild Vegagerðarinnar vinnur að því að búa til öldukort af hafinu í kringum landið. Nú þegar er komið nokkuð víðtækt safn slíkra korta og nýverið bættist við öldukort af hafinu í kringum Vestmannaeyjar. Öldukortin nýtast vel þeim sem hyggja á framkvæmdir eða vilja bjóða upp á þjónustu sem tengist hafsvæðinu.
„Við unnum bæði öldukort fyrir nærumhverfi Vestmannaeyja með áherslu á Heimaey og innsiglingu hafnarinnar, svo og öldukort fyrir stærra svæði sem nær upp að landi, út að Þorlákshöfn og niður að Surtsey,“ segir Bryndís Tryggvadóttir verkfræðingur á hafnadeild Vegagerðarinnar.
Hún útskýrir að þessi öldukort séu nokkuð frábrugðin þeim öldukortum sem skoða megi á vefnum sjolag.is. „Á sjólagsvefnum má sjá öldukort sem sýna núverandi stöðu og spá fyrir um öldufar næstu daga. Öldukortin sem við erum að vinna núna eru fremur eins og greining á öldufari yfir langan tíma. Slík gögn má til dæmis nota til að greina hvort fýsilegt er að fara í framkvæmdir á ákveðnum stöðum. Kortin eru sem dæmi mikilvæg fyrir þá sem hyggja á uppbyggingu í sjókvíaeldi, til að meta hversu raunhæf hún er á ákveðnum stöðum. Ef endurkomutími mjög hárra alda er tíður minnkar ákjósanleiki slíkra framkvæmda. Einnig nýtast öldukortin ferðaþjónustuaðilum sem vilja bjóða upp á bátsferðir eða aðra þjónustu á þessum svæðum. Með kortunum má meta hversu oft er líklegt að fella þurfi niður ferðir miðað við þá hámarks ölduhæð sem bátarnir ráða við.“
Öldukortin eru unnin úr haf- og veðurfræðilegum gögnum frá Samevrópsku Veðurstofunni frá árunum 2000 til 2022. „Þetta eru svokölluð „hindcast“ gögn. Það er gögn sem eru afturreiknuð,“ útskýrir Bryndís en Ingunn keyrir gögnin í gegnum öldulíkan Vegagerðarinnar áður en tölfræðivinnan á sér stað. Niðurstaðan er sannreynd með samanburði úr mælingum úr duflum Vegagerðarinnar við Landeyjahöfn.
„Við fáum þarna gögn sem ná yfir 22 ár og skoðum hvernig aldan hagar sér yfir lengri tíma. Mælum eins árs, tíu ára og hundrað ára kenniöldu, það er hversu háar öldurnar eru sem koma að jafnaði á eins árs, tíu ára og hundrað ára fresti.“
Þegar beiðni barst frá Verkís um öldukort í tengslum við útfærslu á festingum á vatnslögninni sem fór í sundur við Vestmannaeyjar var ákveðið að setja vinnu við öldukort í kringum Eyjar í forgang. Einnig á að bjóða út nýja vatnslögn og því mikilvægt fyrir verkkaupa að hafa grunngögn um öldufar til að byggja á í útboðinu.
„Við vorum því beðin um upplýsingar um straumhraða og -stefnur með 1, 10 og 100 ára endurkomutíma,“ segir Bryndís. Og hver er niðurstaðan? „Öldukortin má sjá hér á síðunni en þar kemur meðal annars fram að um 90% ársins er líklegt að komi 1,2 til 1,8 metra alda rétt utan við mynni hafnarinnar. Þar er eins árs kennialda um þrír til fjórir metrar sem segir okkur að líklega verði slík ölduhæð um einu sinni á ári. Tíu ára kennialda er 3,5 til 4,5 metrar og á hundrað ára fresti metum við að geti komið allt að 6 metra há alda. Ef við horfum á stærra svæði milli lands og Eyja sést sem dæmi að sex metra alda getur komið á tíu ára fresti nærri Landeyjahöfn,“ lýsir hún en gaman getur verið að rýna í kortin og skoða ölduhæð á mismunandi stöðum.
Bryndís leggur áherslu á að þó öldukortin séu upplýsandi séu þetta aðeins grunngögn og hyggi fólk á framkvæmdir þurfi frekari greiningar. Ekki sé ráðlegt að nota kortin til endanlegra ákvarðana.
Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 1. tbl. 2024, nr. 729. Áskrift að Framkvæmdafréttum er frí og hægt að gerast áskrifandi með því að senda póst á askrift@vegagerdin.is