Vegagerðin hefur fest kaup á nýjum jarðtæknibor frá Geomachine í Finnlandi. Borinn er afar tæknilegur og töluvert öflugri en fyrirrennari hans. Hann verður notaður til ýmissa rannsókna sem gagnast við hönnun vega.
Borinn er af gerðinni GM100 og framleiddur af Geomachine í Finnlandi sem sérhæfir sig í framleiðslu gæða jarðtækniborum. Nýi borinn bætist við tækjabúnað stoðdeildar mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar sem hefur hingað til notast við mun minni jarðtæknibor sem kominn er til ára sinna. Sá verður þó áfram í notkun í ýmsum verkefnum.
Vegagerðin fékk nýja borinn afhentan í lok september. Starfsfólk Vegagerðarinnar fékk kennslu á borinn frá tveimur starfsmönnum Geomachine sem dvöldu hér í eina viku. „Fyrsta daginn fengu vélvirkjar okkar kennslu á borinn til að geta sinnt viðhaldi á honum. Næstu daga fengum við þjálfun í stjórnun borsins í Skálafelli, en þar er verið að gera rannsóknir vegna hönnunar á nýjum vegi upp að skíðasvæðinu,“ segir Sverrir Örvar Sverrisson, starfsmaður stoðdeildar Vegagerðarinnar. Vel gekk að læra á borinn en í Skálafelli voru prófaðar allar þær boraðferðir sem borinn býður upp á.
Nýi borinn er mun öflugri en sá eldri og getur borað dýpra. „Borborðið í bornum er tvöfalt og því er hann í raun eins og tveir borar í einum, það er að segja að hann getur framkvæmt tvær boraðferðir í einu,“ lýsir Sverrir en meðal annars getur borinn framkvæmt heildarborun ásamt snúnings- og þrýstiborun. Sverrir segir þörf á bergborunum hafa aukist töluvert og nýi borinn getur m.a. tekið kjarnasýni úr klöppum á mun auðveldari hátt en sá eldri, en meta má berggæði með rannsóknum á borkjörnum. Einnig má framkvæma svokallaðar CPT prófanir sem meta eigindi í jarðvegi með nýja bornum.
Starfsmenn Vegagerðarinnar þurftu að læra ansi margt á skömmum tíma. „Stýringin á þessum bor er allt önnur en við eigum að venjast. Allar aðgerðir eru til dæmis framkvæmdar með fjarstýringu, þó einnig sé hægt að stýra honum handvirkt,“ segir Sverrir og bendir á að öryggi starfsfólks aukist með þessu töluvert, enda þurfi það ekki að standa alveg upp við borinn meðan hann vinnur.
Borinn er búinn ýmsum tækilegum nýjungum, er með nýtt tölvukerfi með snertiskjám sem hægt er að stýra aðgerðum á. Gögnin sem verða til er hægt að senda beint í tölvupósti auk þess sem öll gögn vistast í skýi. „Þar er einnig hægt að fylgjast með ástandi borsins, staðsetningu hans og öllum skjölum sem fylgja honum.“ Sverrir bendir einnig á að Vegagerðin hafi látið útbúa sérstaka lausn fyrir sig til að geta betur staðsett þær holur sem eru boraðar. „Sérstakt mælitæki er tengt við tölvuna í bornum. Þannig vistast alltaf nákvæm hnit borholunnar með öllum upplýsingum sem auðveldar margt.“
Borinn vegur átta tonn og er bæði þyngri og stærri en eldri bor og þar með mun stöðugri. Hann er á beltum og er fluttur á krókheysispalli. Þrátt fyrir stærðina mengar borinn lítið þar sem hann er búinn adblue-kerfi. Þá er notaður umhverfisvænn glussi á borinn sem spillir náttúrunni minna ef glussaleki kemur upp .
Framundan eru ýmis áríðandi verkefni. Fyrst þarf að gera rannsóknarboranir vegna uppbygginu tengivega á Suðurlandi. Í vetur er svo stefnt að því að nýta borinn í jarðtæknirannsóknir vegna Sundabrautar.
Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 6. tbl. 2023, nr. 728. Áskrift að Framkvæmdafréttum er frí og hægt að gerast áskrifandi með því að senda póst á askrift@vegagerdin.is