13. ágúst 2024
Nýr holu­viðgerðar­bíll bætir öryggi og eykur gæði

Nýr holuviðgerðarbíll af tegundinni Archway Roadmaster var nýverið tekinn í notkun hjá Vegagerðinni. Aðeins einn starfsmann þarf til að stjórna bílnum og er holuviðgerðum stjórnað af ökumanni með stýripinna úr ökumannssætinu.

„Þessi bíll kemur í stað eldri holuviðgerðarbíls sem hefur verið í notkun frá árinu 2012. Nýi bíllinn er að mörgu leyti betri. Hann þarf minna viðhald og hægt að stýra honum af meiri nákvæmni,“ lýsir Jón Helgi Helgason, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni.

Írska fyrirtækið Archway á Írlandi átti lægsta boð í útboði um holuviðgerðarbíl. „Fyrirtækið hefur mikla reynslu af holuviðgerðum. Það hefur framleitt svona tæki í um fimmtán ár og á sama tíma hefur það sjálft verið í verktöku í holuviðgerðum og því haft gott tækifæri til að fullkomna tæknina svo hún svari þörfum notandans,“ segir Jón Helgi. Tækið ber heitið Roadmaster og er byggt ofan á Volvo vörubíl.

En hvernig virkar bíllinn? „Bílstjórinn stýrir holuviðgerðartækinu innan úr bílnum. Hann byrjar á því að blása óhreinindi upp úr holunni sem hefur myndast í veginum. Síðan er bikþeytu sprautað á yfirborð holunnar og svæðið í kring svo úr verður hálfgerð límfilma. Bíllinn blandar saman bikþeytu og malarefni og fyllir holuna. Síðan er aftur límt yfir með bikþeytu og þurru steinefni dreift yfir,“ lýsir Jón Helgi og að lokum er efninu þjappað í holuna. Með bílnum er einnig hægt að gera við sprungunet í klæðingum, gera við signar vegaxlir og aðrar skemmdir.

Vandasamt að laga holur vel

Bílstjórinn stýrir öllu viðgerðarferlinu með stýripinna. Búnaðurinn er nokkuð fullkominn og að stóru leyti sjálfvirkur. Í lok dags hreinsar bíllinn sig til dæmis sjálfkrafa og losar sig þá við umframefni svo ekki myndist stíflur.

Jón Helgi segir í raun ekki erfitt að læra á stjórntæki bílsins en hins vegar sé vandasamt að ná góðum tökum á holuviðgerðinni þannig að hún sé sem sléttust. Því taki tíma að ná upp góðri lagni. „Við fengum til okkar kennara frá írska fyrirtækinu sem kenndi fjórum starfsmönnum okkar á tækið í heila viku auk þess sem tveir verkstæðismenn fengu kennslu í viðhaldi á því. Nú fá þeir tíma til að vinna á tækinu og síðar í sumar fáum við kennarann aftur til að fara yfir það sem við erum búnir að gera og þá getum við fínpússað færnina.“

Á bakhlið bílsins er skjár sem getur sent skilaboð til vegfarenda.

Á bakhlið bílsins er skjár sem getur sent skilaboð til vegfarenda.

Stórbætt öryggi

Starfsfólk sem starfar við holuviðgerðir á þjóðvegum landsins er í talsverðri hættu úti á vinnusvæðum. „Þegar holufyllt er á gamla mátann þarf minnst tvo starfsmenn og oftast þrjá sem handmoka ofan í holur. Það er hættulegt að standa óvarinn á þjóðvegi í nálægð við hraða og þunga umferð,“ segir Jón Helgi.

Aðeins einn starfsmann þarf til að stýra holuviðgerðarabílnum og bílstjórinn er vel varinn inni í bílnum. Bíllinn er útbúinn blikkandi ljósum og ljósörvum til að vekja athygli vegfarenda á því að vegavinna sé í gangi. „Þá er ljósaskilti aftan á bílnum sem er nýjung. Þar er hægt að koma skilaboðum til vegfarenda til dæmis um hraðatakmarkanir og hvaða verkefni er í gangi,“ lýsir Jón Helgi en nokkrir mismunandi textar hafa verið settir upp sem birtast á skjánum með reglulegu millibili.

Holuviðgerðarbíllinn verður helst notaður á Suður- og Vesturlandi á umferðarþyngstu vegunum þar sem hættulegast er fyrir starfsfólk að vera að störfum úti við.

Holuviðgerðum er að öllu leiti stjórnað innan úr bílnum með stýripinna.

Holuviðgerðum er að öllu leiti stjórnað innan úr bílnum með stýripinna.

Nýi holuviðgerðarbíllinn er volvo vörubíll útbúinn tækjum frá Roadmaster frá fyrirtækinu Archway.

Nýi holuviðgerðarbíllinn er volvo vörubíll útbúinn tækjum frá Roadmaster frá fyrirtækinu Archway.

Mögulegt að gera við í kaldara veðri

Vandasamt er að gera við holur í vegum nema á sumrin þar sem kuldi hefur slæm áhrif á holuverðgerðarefnið. Með nýja bílnum verður möguleiki að fylla í holur snemma vors og síðla hausts. „Bíllinn getur tekið inn heitt loft úr pústinu til að blása heitu lofti ofan í holuna til að hita upp jarðveginn áður en límt er yfir. Einnig er hitari í malarsílóinu sem hitar steinefnið allt upp í 80 gráður og bikþeytan er alltaf heit, kringum 60 til 80 gráður. Þetta gerir okkur kleift að gera við holur í allt að tveggja gráðu frosti.“

Jón Helgi segir holuviðgerðarbílinn ekki endilega fljótvirkari, en töluvert vandvirkari. „Tækið fyllir ekki aðeins í holuna, heldur lagar einnig umliggjandi svæði út frá holunni. Það hefur sýnt sig að oft myndast nýjar skemmdir út frá viðgerðum þar sem aðeins er fyllt ofan í holuna sjálfa. Ef viðgerðin er rétt gerð á bílnum, fullyrðir framleiðandinn að hún eigi að duga í a.m.k. átján mánuði eða meir.“

Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 3. tbl. 2024 nr. 731.  Áskrift að Framkvæmdafréttum er frí og hægt að gerast áskrifandi með því að senda póst á askrift@vegagerdin.is

Tækjabúnaðurinn er nokkuð flókinn.

Tækjabúnaðurinn er nokkuð flókinn.

Kennari frá írska fyrirtæki Archway kenndi starfsfólki Vegagerðarinnar á bílinn.

Kennari frá írska fyrirtæki Archway kenndi starfsfólki Vegagerðarinnar á bílinn.