26. ágúst 2022
Ný vegr­ið á brýr yfir Elliða­ár og Reykja­nesbraut

Unnið er að endurnýjun vegriða á brúm yfir Elliðaár og á Reykjanesbraut. Verklok eru áætluð í september. Framkvæmdir þessar eru hluti af vegriðsátaki Vegagerðarinnar sem hófst árið 2019 til að auka umferðaröryggi. 

Vegriðin sem fyrir voru eru 15-20 ára gömul en stóðust ekki þá staðla sem miðað er við í brúarvegriðum í dag. Nýju vegriðin eru hönnuð fyrir þann umferðarhraða sem er á veginum og eru sterkari og með öðruvísi útlit.

Verkefni þetta er eitt af nokkrum vegriðsverkefnum sem ákveðið var að vinna í ofangreindu vegriðsátaki. Þegar er búið að skipta um vegrið á brúm yfir Kaldakvísl og Leirvogsá á Hringvegi (1) í Mosfellsbæ, en það var gert árið 2020, og á brúm á Hafnarfjarðarvegi yfir Kársnesbraut og Nýbýlaveg árið 2021. Einnig á að setja  að setja upp ný vegrið á Borgarfjarðarbrú haustið 2022 og á brýrnar yfir Hafnarfjarðarveg við Hamraborg og á Digranesvegi í Kópavogi haustið 2022. Þá verður skipt um vegrið á Glerá á Akureyri eystri-kant á þessu ári. Samtals eru þetta 14 verkefni í vegriðsskiptum.

Á brúm fyrir neðan Ártúnsbrekku var hægt að nota  fyrirliggjandi festingar fyrir vegriðsstoðirnar. Verktakinn setur saman einingar á athafnasvæði yfir daginn og kemur svo með þær einingar og hífir á staðinn yfir nóttina.

Þegar er búið að skipta um vegrið á brúnum yfir Elliðaár og Reykjanesbraut á akreininni niður Ártúnsbrekku og svo verður skipt um á brúnum á akreininni upp Ártúnsbrekku núna í ágúst.

Vegriðið er hannað að VBV verkfræðistofu og smíðað hjá Vik Örsta í Noregi.

Samtals eru þetta 4 brýr fyrir neðan Ártúnsbrekku og eru yfir Elliðaár og Reykjanesbraut.

Helstu magntölur eru eftirfarandi:

  • Niðurtekt brúarvegriðs 495 m
  • Niðurtekt bitavegriðs utan við brýr 154 m
  • Uppsetning brúarvegriðs á steyptan kantbita  495 m
  • Bitavegrið utan við brú 480 m

Aðalverktakinn við verkið er D.Ing-Verk ehf. og undirverktaki er Rekverk.

Eftirlit með verkinu er í höndum  VBV verkfræðistofa og Vegagerðin er með verkefnastjórn og umsjón.

Þessi grein birtist í 5. tbl. Framkvæmdafrétta 2022. Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.

 

Nýtt vegrið er komið á brúna yfir Reykjanesbraut á akreininni niður Ártúnsbrekku.

Nýtt vegrið er komið á brúna yfir Reykjanesbraut á akreininni niður Ártúnsbrekku.

Nýju vegriðin eru öðruvísi en þau gömlu.

Nýju vegriðin eru öðruvísi en þau gömlu.