25. október 2023
Ný brú yfir Þorska­fjörð form­lega opnuð í dag

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar og Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps, opnuðu formlega nýja brú yfir Þorskafjörð fyrr í dag, miðvikudaginn 25. október.

Klippt var á borða á brúnni yfir Þorskafjörð að viðstöddu fjölmenni. Jóhanna Ösp Einarsdóttir, varaoddviti Reykhólahrepps, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga og íbúi í Gufudal, fór síðan ríðandi yfir brúna ásamt dætrum sínum tveimur. Yrsu Dís og Ásborgu Styrmisdætrum. Óhætt er að setja að mikil gleði hafi ríkt við athöfnina, enda um að ræða miklar samgöngubætur fyrir þetta svæði sem tengir það betur við landið allt.

Sigurður Ingi Jóhannson innviðaráðherra segir að um sé að ræða miklar samgöngubætur sem auki umferðaröryggi vegfaranda. ,,Með styttri ferðatíma munu framkvæmdirnar að vonum styðja við fyrirhugaða framþróun í atvinnulífi, svo sem fiskútflutning, ferðaþjónustu og fleira,“ segir Sigurður Ingi. Hann segist einnig binda vonir við að þessi samgöngubót muni auðvelda ferðalög um Vestfirði og tengja landshlutann betur við allt landið.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, segir öllu máli skipta fyrir íbúa að fá nútímalegan láglendisveg. ,,Og við vitum að barnafólkið hér í sveitinni gleðst sérstaklega yfir þessum framkvæmdum því það sér nú fram á að þurfa ekki í framtíðinni að senda börn í skólabíl yfir viðsjárverða fjallvegi,“ segir hún.

Nokkrar staðreyndir um verkið: Vestfjarðavegur (60) um Gufudalssveit, Kinnarstaðir – Þórisstaðir.

Nýja brúin er 260 m löng, tvíbreið, staðsteypt, eftirspennt bitabrú í sex höfum. Auk hennar voru gerðar vegfyllingar á 2,7 km kafla. Verklok voru áætluð í lok júní 2024 og er framkvæmdin því langt á undan áætlun. Með nýrri brú leggst af um 10 km kafli á núverandi Vestfjarðavegi ásamt einbreiðri brú á Þorskafjarðará frá árinu 1981. Framkvæmdirnar eru hluti af stærra verkefni í Gufudalssveit sem er vegagerð um Teigsskóg ásamt þverunum á Djúpafirði og Gufufirði. Tengd verk sem einnig er áætlað að ljúki á árinu 2023 eru:

·         Vestfjarðavegur (60) um Gufudalssveit, Þórisstaðir-Hallsteinsnes (Teigsskógur)

·         Vestfjarðavegur (60) um Gufudalssveit, Djúpadalsvegur (6087).

Tilboð í verkið voru opnuð 16. febrúar 2021. Suðurverk bauð rúmar 2.236 m.kr. sm var 107,6 prósent af áætluðum verktakakostnaði. Skrifað var undir verksamning við Suðurverk 8. apríl  2021. Framkvæmdir hófust í október það sama ár.

Tilboð í eftirlit með verkinu voru opnuð 19. október 2021. Samið var við Verkís verkfræðistofu. Verkefnastjórn var í höndum framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar og umsjón framkvæmdar hjá Vestursvæði Vegagerðarinnar. Auk þessara aðila komu fjölmargir starfsmenn Vegagerðarinnar að ýmsum þáttum undirbúnings og einstökum hlutum verksins ásamt ráðgjöfum.

Með aðalverktakanum Suðurverki störfuðu margir undirverktakar við útboðsverkið: Eykt sá um brúarsmíði, Steypustöðin sá um steypuframleiðslu, Borgarverk sá um klæðingar á vegum og Nortek setti upp vegrið.

Við lok þessara framkvæmda þarf ekki lengur að aka um Hjallaháls sem er í 336 metra hæð.  Þegar öllum framkvæmdum við Vestfjarðaveg í Gufudalssveit verður lokið verður heildarstytting vegarins um 22 km, þ.e. þegar lokið hefur verið við að þvera Gufufjörð og Djúpafjörð. Aksturstími styttist um 30 mínútur.

Klippt var á borða við viðstöddu fjölmenni.

Klippt var á borða við viðstöddu fjölmenni.

Stefán Rafn Kristjánsson og Hallrún Ásgrímsdóttir stóðu heiðursvörð.

Stefán Rafn Kristjánsson og Hallrún Ásgrímsdóttir stóðu heiðursvörð.