Framkvæmdir eru hafnar við gerð nýrrar brúar yfir Jökulsá á Sólheimasandi. Framkvæmdin er tímabær enda er þetta eina einbreiða brúin á Hringvegi 1 frá Reykjavík og austur fyrir Kirkjubæjarklaustur. Þetta verður þriðja brúin sem byggð er yfir þessa alræmdu á en sú fyrsta var byggð 1921 og núverandi brú árið 1967.
Þessi grein birtist í 1. tbl Framkvæmdafrétta. Rafræna útgáfu má finna hér. Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.
Umferðin yfir þessa 159 metra löngu einbreiðu brú hefur aukist mikið undanfarin ár, en árið 2019 var hún orðin rúmlega 2350 ökutæki á sólarhring og því orðið mjög aðkallandi að byggja nýja brú.
Verkið Hringvegur (1-b5) um Jökulsá á Sólheimasandi, var boðið út í september 2020 og tilboð opnuð í lok október. Lægstbjóðendur voru ÞG Verktakar og var gengið til samninga við þá þann 11. desember.
Verkið felst í byggingu brúar á Jökulsá á Sólheimasandi ásamt endurgerð vegakafla Hringvegar beggja vegna og gerð bráðabirgðavegar. Hæðarlega vegkaflanna er breytt frá því sem nú er, meðal annars til að vegurinn rofni áður en flæðir yfir brúnna. Brúin verður rúmlega 163 metra löng tvíbreið steinsteypt, eftirspennt bitabrú.
Hringvegur og bráðabirgðavegur verða með 3,5 m breiðum akreinum og 1,0m breiðum öxlum. Lögð verður 8,8 m breið klæðing á Hringveg, þannig að hvoru megin vegar verður 0,1 m breið malaröxl, en 7,0 m breiða klæðingu á bráðabirgðaveg, þannig að hvorumegin vegar verður 1,0 m breið malaröxl.
ÞG verktakar hófust handa strax að lokinni undirskrift samningins. Þá hefur brúarflokkur Vegagerðarinnar lokið við byggingu bráðabirgðabrúarinnar norðan við núverandi brúarstæði sem verður notuð meðan á verkinu stendur. Mikilvægt er að halda veginum opnum enda er brúin mikilvægur hlekkur í samgöngum á Suðurlandi og á Hringveginum.
Bráðabirgðavegur skal vera tilbúinn eigi síðar en 22. maí. Klæðingar verða lagðar á tímabilinu 3. til 20. september 2021. Verkinu skal að fullu lokið eigi síðar en 6. desember 2021.
Jökulsá á Sólheimasandi var afar varasöm yfirferðar og heimtaði fjölmörg líf áður en hún var brúuð 1921. Í bókinni Brýr að baki , Brýr á Íslandi í 1100 ár eftir Svein Þórðarson er ítarleg frásögn af aðdraganda fyrstu brúargerðarinnar. Eftirfarandi upplýsingar eru fengnar úr bókinni.
Mannskaðar voru tíðir í Jökulsá á Sólheimasandi en ekki ber mönnum alveg saman um fjöldan. Geir G. Zoega vegamálastjóri sagði til dæmis árið 1921 að á 19. öld og það sem liðið var af þeirri tuttugustu hefðu fjörutíu manns farið í ána en á tólf árum um og eftir aldamótin hefðu átta menn drukknað í henni. Jón Þorláksson nefndi aðrar og lægri tölu, taldi að átta eða níu menn hefðu drukknað í Jökulsá síðustu áttatíu árin á undan.
Farið var að ýta fast á brúargerð í upphafi 20. aldar. Haldnir voru fundir í Vík í Mýrdal og að Sólheimum árið 1909 en þá var greint frá mælingum Magnúsar Finnbogasonar á breidd árinnar á þeim stöðum þar sem mestar líkur væru á brúarstæði. Á Alþingi vorið 1911 var samþykkt að ráðast í að brúa ánna. Til brúargerðarinnar skyldi verja allt að 78 þúsund krónum. Var þá áætlunum um hengiferju kastað fyrir róða en þegar var búið að gera áætlun um slíka við Stórusteina. Brúin var áætluð á sama stað, 228 metra löng. Það yrði þá næstlengsta brú landsins á eftir Lagarfljótsbrú.
Nokkur bið var á að fé væri veitt til brúargerðarinnar. Ný brúarlög voru sett árið 1919, rituð af Geir G. Zoega vegamálastjóra. Þar eru tilgreindar sjötíu brýr, þar á meðal brúin yfir Jökulsá á Sólheimasandi. Vinna við brúargerð hófst síðan 1920. Verkið gekk illa, aðstæður voru erfiðar og áin hljóp þrisvar og gerði þannig nærri að engu þá vinnu sem unnin hafði verið.
Flutningur á efni í brúnna var erfiðleikum bundinn en allt brúarefnið var flutt á mótorbátum frá Vestmannaeyjum að Jökulsárósum. Þar lögðu menn við um 200 metrum frá landi og bátsformenn voru fengnir til að flytja efnið í land. Járn í yfirbygginguna kom 1921 og var fleytt að landi bundið í tómar tunnur. Sex hundruð tunnur sements frá Danmörku voru flutt á Sólheimasand og ekið að brúarstæðinu í hestakerrum.
Þrátt fyrir alla erfiðleika var Jökulsárbrú vígð 3. september 1921.
Brúin var smíðuð fyrir innlent ríkislán og kostnaður nam 250 þúsund krónum sem var helmingi hærri upphæð en dýrasta brúin sem hér hafði verið gerð, Lagarfljótsbrúin. Munaði þar mestu hvað efni hafði hækkað mikið á eftirstríðsárunum.
Brúin gegndi hlutverki sínu furðu lengi en ekki án áfalla. Árið 1945 lokaðist brúin á aðra viku þegar gróf undan landstöplinum austan megin og mikið skarð myndaðist í veginn. Síðla hausts 1965 féll hluti brúarinnar. Mikill vöxtur hafði verið í ánni og vegurinn vestan við brúna rofnaði og gróf undan landstöplinum. Aftur stöðvaðist öll umferð í Vestur Skaftafellssýslu. Næsta haust gróf aftur frá stöpli undan henni. Tókst að gera við brúna í öll skiptin en ekki þótti lengur hægt að treysta á hana.
Smíði nýrrar brúar hófst í maí 1967 og var lokið í október. Nýja brúin var einbreið, 159 metra löng. Hún var stálbitabrú í fimm höfum með steyptu gólfi. Brúin var byggð aðeins neðar en fyrsta brúin. Stöplarnir voru grafnir eins langt niður og tækjabúnaður réð við á þeim tíma, eða frá þremur upp í fimm metra. Áætlaður kostnaður við brúarbygginguna var 12 milljónir króna.
Jón Trausti (Guðmundur Magnússon) skrifaði í upphafi tuttugustu aldar ritgerð um ferðir yfir Jökulsá og ákall um úrbætur. Ritgerðin birtist í ritinu Ferðasögur. Hér verður birtur stuttur kafli úr ritgerðinni.
Hún er ein af styztu jökulám á landinu, ekki meira en hér um bil míla á lengd, og hún er ein af vatnsminnstu jökulám að jafnaði; samt er hún mannskæðasta áin á landinu.
Í fornöld þótti hennar varla sæma nafnið á, heldur var hún kölluð lækur, Fúlilækur.
Samt hefur hún snemma grafið sig djúpt í meðvitund þjóðarinnar, og jafnan fylgir henni eitthvert rammakynngi. Landnáma segir svo frá upphafi hennar, að þeir landnámsmennirnir Loðmundur á Sólheimum og Þrasi í Skógum hafi veitt ánni hvor á annan með fjölkynngi, en loks sætzt á það, að hún rynni þar til sjávar, sem skemmst væri.
Seinna hefur þjóðtrúin gert hana að lifandi ókind. Þær kallast á, Jökulsá þessi og Dufþekja í Vestmannaeyjum, og metast um, hvor þeirra verði fleiri mönnum að bana. Og alltaf veitir Jökulsá betur!
Þessar sögur sýna, hve illræmd Jökulsá er og hvern ímugust þjóðin hefur á henni. Og það verð ég að segja, að Jökulsá á Sólheimasandi er ljótasta vatnsfallið, sem ég hefi séð, þótt ég hafi mörg séð stærri.
Skriðjökullinn, sem hún kemur úr, liggur í djúpu gili á milli sandrunninna fjalla, sem standa meðfram suðurrönd Mýrdalsjökuls. Skriðjökullinn „gægist niður í hafið“, eins og skáldið (Gr. Th.) kemst að orði. Og fram úr neðstu trjónunni á honum veltist þetta ófrýna afkvæmi.
Hún er samfelldur, beljandi straumstrendur frá jöklinum og fram í sjó, þar sem hún tekur brimrótið fangbrögðum. Alla þá leið orgar hún eins og gráðugt villidýr og byltir til stórum jökulhnullungum í botninum. Vatnið er móbrúnn jökulkorgur, svo þykkur, að öldurnar geta varla freytt, og svo daunillur, að fýluna af honum leggur vestur á miðjan sand.
Hvergi er vað á henni, sem treysta má. Hún kastar beljandi höfuðstrengnum sitt á hvað og rótar til mölinni undir sér; grefur sig niður á þessum staðnum, hleður upp eyrum annars staðar, rennur sums staðar dreift, en sums staðar í einu lagi. Aldrei er hún eins degi lengur.
[…]
Ég veit ekki hvort tiltök eru að brúa hana, en líklegt er, að sú brú yrði að vera meira mannvirki en önnur hér á landi, ef hún ætti að standast þann ofsa, sem stundum hleypur í þessa á, – þegar hún sprengir af sér jökulinn og ryður honum fram til sjávar í stórum, bláhvítum björgum.
En sé það kleift, er það eina trygga ráðið.
Hugsanlegt væri, að setja mætti á hana svifferju, þar sem hún rennur öll í einu lagi, eða á á lónið í ósnum.
Einnig væri vert að athuga, hvort ekki er hægt að halda jöklinum fyrir ofan hana færum. Stundum kvað vera rekið yfir hann fé. Auðvitað er hann langt úr vegi, þar sem vegurinn liggur nú. En væri hann fær, mundu þó fleiri leggja þann krók á sig heldur en að rjála við ána í tvísýnu. En jökullinn er ekki fær með hesta neðan til eins og hann er nú.
Eitthvað verður að hafast að, til þess að alþjóð fái ekki fleiri mannskaðafréttir af þessari á. Og vel væri gert af þeim, sem henni eru kunnugastir, að þeir létu menn heyra álit sitt og tillögur um þetta mál.