Smíðum á nýrri brú yfir Gilsá á Völlum í Múlaþingi lauk síðastliðið haust. Brúarsmíðin var hluti af verkinu Skriðdals- og Breiðdalsvegur (95) – um Gilsá á Völlum. Ný brú mun auka umferðaröryggi og stuðla að greiðari samgöngum á Skriðdals- og Breiðdalsvegi.
Verkið fólst nýbyggingu Skriðdals- og Breiðdalsvegar á um 1,2 km kafla auk byggingu 46 metra langrar brúar yfir Gilsá. Verkið var fyrst boðið út sumarið 2021 en ekkert tilboð barst. Því var ákveðið að skipta því upp. Stálsmíðin var tekin úr verkinu og boðin sérstaklega út. Stálvirkið í brúna var smíðað af MSV (Myllan Stál og Vélar) ehf. á Egilsstöðum, en undirverktaki MSV í yfirborðsmeðhöndlun var Stjörnublástur ehf. á Seyðisfirði. Brúarframkvæmdin var boðin aftur út um haustið og tilboð opnuð í september 2021. Samið var við MVA ehf. á Egilsstöðum sem sá um brúargerðina en vegagerð var í höndum undirverktaka MVA; Héraðsverks ehf.
Brúin yfir Gilsá er 46 m löng bitabrú í þremur höfum og er bæði úr stáli og steypu. Brúin er grunduð á klöpp og millistöplar eru hallandi stálsúlur. Brúargólfið var staðsteypt á forsteyptar einingar. Brúin er tvíbreið, 10 m breið með 9 m breiðri akbraut og 0,5 m bríkum. Vegurinn að brúnni er 8,0 m breiður með 7 m breiðri akbraut og 0,5 m breiðum öxlum. Lega vegarins var löguð til að forðast krappar beygjur. Vegrið eru við brúarenda og ná 60 m frá endum brúarinnar. Vegrið eru einnig þar sem bratt er fram af veginum.
Nýja brúin var byggð 25 metrum fyrir ofan gömlu brúna yfir Gilsá sem er einbreið frá árinu 1957. Aðkoman að brúnni var hættuleg sérstaklega í innri endanum þar sem var kröpp beygja og því mikilvægt að skipta henni út til að auka umferðaröryggi og bæta greiðfærni. Gamla brúin stendur enn og ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort hún fái nýtt hlutverk fyrir óvarða vegfarendur í samræmi við stefnu Vegagerðarinnar um samþættingu samgöngumáta.
Neðan við gömlu og nýju brúna stendur ein brú til viðbótar frá árinu 1908. Það er fyrsta járnbrúin sem alfarið var smíðuð á Íslandi. Sú brú er vernduð líkt og steinhleðsla í veginum sem liggur að henni. Þess má geta að neðan við elstu brúnna stóð eitt sinn önnur brú yfir Gilsá sem byggð um 1868 og stóð vel fram yfir árið 1900 en tók þá af í krapahlaupi. Saga brúa yfir Gilsá er því rúmlega 150 ára gömul.
Snemma í verkinu var ákveðið að auðveldara væri að setja stálvirki brúarinnar saman áður en það yrði híft á undirstöður sína yfir ánni. Var talið að samsetning og yfirborðsmeðhöndlun yrði mjög flókin í djúpu gilinu. Stálvirkið í brúna var því sett saman og yfirborðsmeðhöndlað á verkstað, sunnan við nýja brúarstæðið. Það var híft á sinn stað 30. maí 2023 en töluverð vinna fór í undirbúning enda verkið nokkuð flókið. Vel gekk að hífa stálvirkið á sinn stað enda hafði verkið verið skipulagt af kostgæfni. Rúmlega fimm klukkustundir tók að hífa stálvirkið og ganga frá því á sinn stað. Nokkurn tækjakost og mannskap þurfti í verkið, meðal annars þrjá krana, einn bílkrana og kranastjóra, auk fimm starfsmanna frá MSV og MVA.
Umferð var hleypt á nýju brúna í ágúst 2023 og verkið fullklárað í október. Upphaflega var áætlað að verkinu myndi ljúka haustið 2022 en verklok töfðust um ár þar sem afhending á stáli í verkið dróst vegna vegna erfiðleika við að útvega stál sem skýrðist meðal annars af stríðsátökum í Úkraínu og Covid-faraldurs.
Hér má sjá myndbönd sem sýna þegar stálvirkið var híft á sinn stað en einnig frá uppsetningu platna. Myndböndin eru af facebooksíðu aðalverktakans MVA ehf.