Umferð á höfuðborgarsvæðinu reyndist 3,2% meiri í nýliðnum júlímánuði samanborið við sama tíma í fyrra, samkvæmt umferðarmælingum Vegagerðarinnar en mælt er á þremur stöðum. En árleg meðalaukning í júlí, frá árinu 2005, er 2,45%.
Mest jókst umferð um mælisnið á Hafnarfjarðarvegi við Kópavogslæk eða 4,9%, en minnst um mælisnið á Vesturlandsvegi ofan Ártúnsbrekku eða 1,9%. Alls fóru tæplega 178 þúsund ökutæki á sólarhring um mælisniðin þrjú, sem er nýtt met í júlí. Hafa ber í huga að sama ökutækið getur mælst oft á sama stað og einnig á fleiri en einum stað.
Nú hefur umferð aukist um 3,6%, frá áramótum, borið saman við sama tímabil á síðasta ári.
Mest var ekið á fimmtudögum, í nýliðnum mánuði, en minnst á sunnudögum. Umferð jókst mest á föstudögum, eða 2,2%, en dróst lítillega saman á þriðjudögum eða um 0,1%.
Nú er útlit fyrir það að umferð yfir lykilteljara á höfuðborgarsvæðinu geti aukist um 3,5% fyrir árið 2024. En árleg meðalaukning, frá árinu 2005, hefur verið 2,33%.